Hermann Nökkvi Gunnarsson
Skurðurinn á hægri handlegg Guðmundar Felix Grétarssonar er gróinn. „Þetta lítur allt mikið betur út," segir Guðmundur Felix í samtali við mbl.is. Bólga á fingrum hans hefur hins vegar valdið því að hann er búinn að missa neglurnar.
Í lok maí greindi hann frá því að vegna sýkingar læki vökvi úr skurði á hendleggi hans með þeim afleiðingum að sárið náði ekki að gróa.
Guðmundur Felix birti þessar myndir í gær á Instagram. Á myndunum má sjá ör eftir skurðinn.
Viðvarandi bólga í þremur fingrum veldur smá áhyggjum og ekki er alveg vitað hvað er á seyði.
„Þetta byrjaði um daginn með því að bólga byrjaði að myndast í kringum neglurnar og ég hreinlega missti neglurnar."
Þessa mynd birti Guðmundur í maí og má sjá mikinn mun á því hvernig sárið leit út þá.
Guðmundur Felix er á þremur mismunandi lyfjum núna en læknar ætla að bæta við fjórða lyfinu sem á að veita honum breiðari vörn. „Kannski að það geti hjálpað með þetta naglavesen. Það er vonin."
Þegar blaðamaður heyrði í Guðmundi þá var hann staddur á lestarstöð á leiðinni til borgarinnar Lille í Frakklandi. Er hann að sækja ráðstefnu evrópskra skurðlækna þar sem hann mun flytja lykilræðu.