Þorlákur Einarsson
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,6% á milli mánaða, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Sú hækkun hafði áhrif um 0,31% hækkun á vísitölu neysluverðs á milli mánaða.
Róbert Farestveit, hagfræðingur ASÍ, segir mikil vonbrigði felast í því að húsnæðisliðurinn sé enn helsti drifkraftur hækkunar.
Hann segir í samtali við mbl.is að ársverðbólga sé sannarlega að fara niður, en engu að síður sé töluverð hækkun á verðlagi milli mánaða.
„Þótt ársverðbólgan sé að fara niður virðist sú hjöðnun vera frekar hæg. Það er í takt við það sem við gerðum ráð fyrir í hagspánni okkar í maí, að verðbólgan yrði yfir 7% út þetta ár.“
Hann segir að hægt sé að greina á ýmsum mælikvörðum að aðgerðir Seðlabanka og ríkisstjórnarinnar séu að bíta.
„Þessi mæling sýnir hins vegar ekki að þær séu að koma hratt inn í verðlag. Á alla mælikvarða er þetta töluverð hækkun á milli mánaða.“