Reykjavíkurborg hyggst hækka bílastæðagjöld á gjaldsvæði 1 um 40% í miðborg Reykjavíkur. Þá verður tími gjaldtöku lengdur frá 18 til 21 á virkum dögum og laugardögum. Eins verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum á gjaldsvæðum 1 og 2.
Sem stendur hljóðar gjaldskráin á svæði 1 upp á 430 krónur fyrir hverja klukkustund en gjaldið á að hækka í 600 krónur á klukkustund. Þá hefur gjaldskylda verið frá 9-18 á virkum dögum en frá 10-16 á laugardögum. Ekki hefur verið rukkað fyrir bílastæði á sunnudögum til þessa.
Tillagan var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í gær og staðfest í flýtimeðferð borgarráði í dag.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir hækkunina ótrúlega þegar tekið sé mið af verðbólgu.
„Allir stjórnmálaflokkar eru sammála um það að aðalviðfangsefnið sé að ná niður verðbólgunni. En Reykjavíkurborg leyfir sér á sama tíma að fara á sama tíma í 40% hækkun á þjónustugjöldum. Bílastæði eru ekkert annað en þjónustugjöld sem þúsundir nota á hverjum degi. Við höfum rætt þessi gjaldskrármál í allan vetur og hvarvetna höfum við fengið þau skilaboð frá ríkisstjórn og öðrum að ef hækkun er nauðsynleg að slík hækkun verði ekki meiri en verðbólgan,“ segir Kjartan.