„Við erum náttúrulega búin að vera að vinna að þessum samningi í langan tíma eftir mjög langt samningsleysi,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur um nýjan fimm ára samning Læknafélags Reykjavíkur og sérgreinalækna við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ).
Ragnar kveðst bjartsýnn á að Læknafélag Reykjavíkur samþykki samninginn enda hefði hann ekki samþykkt samninginn fyrir hönd félagsins nema hann stæði í þeirri trú.
Í samtali við mbl.is kveðst hann nýkominn af þéttsetnum fundi þar sem hann og félagsmenn hafi átt heiðarlegt og opið spjall um samninginn, sem hann segir löngu tímabæran. Atkvæðagreiðsla um samninginn stendur nú yfir meðal félagsmanna.
Hann segir það mjög ánægjulegt að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafi undirritað samninginn í dag. Félagið hafi staðið í þrotlausum fundum með SÍ og átt mjög gott samstarf við þau upp á síðkastið.
Spurður hvað hafi gert það að verkum að samningar hafi náðst eftir svona langt samningsleysi, segir Ragnar félagið og SÍ lengi ekki hafa haft sömu sýn á m.a. verð og magn þjónustu og forsendur samstarfsins.
Ítarleg samtöl við nýjan forstjóra hafi hins vegar að lokum orðið til þess að báðir aðilar hafi öðlast betri og sameiginlegri sýn á verkefnið. „Þegar maður er búinn að brjóta hlutina til mergjar þá öðlast maður betri sýn á verkefnið.“
Hann segir samninginn leiða til þess að viss greiðslubirgði og komugjöld muni falla út. Enn verði einhver gjöld sem sjúklingar þurfi að greiða úr eigin vasa en í samningnum séu tæki um hvernig eigi að höndla slíkt.
„Vissar breytingar munu gerast strax, sumar munu taka lengri tíma, en við erum með sömu sýn um hvernig eigi að leysa þau verkefni.“