„Einu sinni var Björk 15 ára pönkari sem spilaði í einhverjum skúr“

Helga Waage og Tóti Stefánsson segja mikilvægt að styðja við …
Helga Waage og Tóti Stefánsson segja mikilvægt að styðja við tónleikahús, ef fólk vilji áframhaldandi tónlistarsenu. Samsett mynd

Helga Waage og Þórarinn Stefánsson, forsprakkar viðburða-snjallforritsins Gjugg, segja tónlistarstöðum Reykjavíkur fara fækkandi og hótel og dýrar íbúðir spretti upp í þeirra stað. Þau segja tónlistarsenuna hins vegar vanmetið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem skili hagnaði til lengri tíma.

Eigandi skemmtistaðarins Húrra, Þorsteinn Stephensen, tilkynnti nýverið að hann hygðist loka dyrum staðarins, að minnsta kosti tímabundið, þar sem hann stæði ekki undir leiguverði lengur. Viðraði fjölmiðla- og listakonan Margrét Erla Maack áhyggjur sínar af tónleikastöðum í Reykjavík í kjölfarið á Facebook-reikingi sínum. 

Í samtali við mbl.is segja Helga og Þórarinn, eða Tóti eins og hann er oftast kallaður, vandamálið ekki einungis skorðast við Ísland. 

Rekstraraðilar hraktir í burtu 

„Þetta er alþjóðlegt, þetta er út um allt. Gömlu tónleikahúsin eru að láta undan síga að því þau búa ekki til nægilega mikið af peningum. En eru hins vegar oft ótrúlega vel staðsett og upplögð til að setja upp hótel,“ segir Tóti.    

Fasteignagjöld og rekstragjöld hækka vegna aukinnar ferðamennsku, en hagnaður skemmtistaða og tónleikahúsa hækka ekki í takt við það. Fasteignagjöldin taka því ekki mið af þeim rekstri sem á sér stað í húsnæðinu að sögn Tóta. 

„Þá verði þröngt í búi hjá einhverjum sem eru að reyna að hafa eitthvað krúttlegt og indí,“ segir hann. Rekstraaðilar gefist því upp á endanum og loki.

„Eða þeir eru hraktir í burtu að því það eru læti of seint eða læti almennt. En þá sitja menn uppi með að einhver sem flutti í miðbæinn að því það er svo mikið líf þar er síðan kvarta undan látunum í lífinu.“ 

Flytja í miðbæinn en vilja ekki lífið

Helga tekur undir það og nefnir hástéttarvæðingu miðbæjarins, eða það sem kallast gentrification á ensku, sem vandamál fyrir rekstur tónleikahúsa. Margir staðir glími nú við skilyrði í leigusamningum um að hávaði skuli vera í lágmarki og hætt fyrir klukkan 22 eða 23.

Segir Helga margt fólk flytja í nýjar og dýrar íbúðir miðsvæðis, en svo ekki vilja fólkið og lífið sem fylgi miðbænum. Fáir staðir standi því eftir sem megi halda tónleika með tilheyrandi hávaða.

Stórgræða á senunni, en ekki á uppbyggingarstarfinu

Helga telur aðra ástæðu fyrir fækkandi tónleikastöðum vera skort á uppbyggingu. Gömul tónleikahús eins og Gamla Nasa hafi verið í niðurníddum húsakynnum, sem hafi á endanum óhjákvæmilega verið rifin. Ekkert hafi þó verið byggt í staðinn fyrir þær pönk- og grasrótarhljómsveitir sem þar spiluðu.

Tóti tekur undir með Helgu og bætir við: „Markaðurinn sér ekki ástæðu til að byggja tónleikastaði, sem er bara eðlilegt það er engin peningur í þessu. En ef við viljum hafa áframhaldandi tónlistarstarf þá verður fólk að fá að spila einhversstaðar.“

Segja þau mikilvægt að veita tónlistarfólki stað til þess að sýna listir sínar og segir borgina þurfa að halda áfram að veita styrki til hljóðeinangrunar og tónleikahalds, eða veita leyfi til að halda tónleika í byggingum sem ekki eru í nýtingu.  

Þá gæti hið opinbera einnig verið með lægri eða enga skatta á menningarhúsum til að styðja við menningarstarf í miðbænum. „Við og hið opinbera stórgræðum á senunni, en við græðum ekki neitt á uppbyggingarstarfinu,“ segir Tóti.  

Reykjavík „einu sinni á ævinni borg“  

Helga segir Íslandi almennt horfa til skammtíma ferðamennsku og algjörlega vanmeta menningartengda ferðamennsku. Auðvitað skili ýmsir ferðamannastaðir hagnaði, en tónleikahald og menningarviðburðir séu það sem laði fólk að borginni. 

Til að mynda hafi ótal manns ferðast til landsins til að sjá Björk, sem hafi jú byrjað sem pönkari í grasrótar-hljómsveit. 

„Einu sinni var Björk 15 ára pönkari sem spilaði í einhverjum skúr,“ segir Helga „og núna er einhver annar 15 ára pönkari sem er að spila í einhverjum öðrum skúr. Það tekur langan tíma að byggja upp tónlistarmenn sem höfða til fólks á alþjóðavísu.“ 

Segir Tóti Reykjavík eiga það á hættu að verða „einu sinni á ævinni borg“ ef að borgin og menningarlífið sé aðeins hannað til að höfða til ferðamanna, sem hér stoppa stutt, í stað þess að höfða til þeirra sem hér lifa. 

„Ef ekkert er hingað að sækja þá koma menn ekki,“ bætir Helga við.

Tónlistarunnendur verða að styrkja tónlistarhús

Helga segir einnig mikilvægt fyrir tónleikaunnendur styrki hljómsveitir og tónleikahús, eins og Húrra, ef þau vilji að starfsemin haldi áfram. Staðirnir lifi einfaldlega ekki af án þess að selja drykki eða aðgöngueyri. 

„Ef þú sem tónlistaráhugamaður vilt hvorki borga staðnum né þá tónlistarmönnum, þá er það bara þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert