Gervigreind notuð í starfi heilsugæslunnar

Arnar Freyr Reynisson, framkvæmdastjóri Dicino, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar …
Arnar Freyr Reynisson, framkvæmdastjóri Dicino, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Steingrímur Árnason, tæknistjóri Dicino. Ljósmynd/Aðsend

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur samið við íslenska heilsutæknifyrirtækið Dicino um áframhaldandi notkun og þróun gervigreindar sem verkfæri hjá upplýsingamiðstöð stofnunarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Vel heppnað tilraunaverkefni

Tilraunaverkefni þar sem gervigreindin nýtist í netspjalli Heilsuveru hefur gefið góða raun. Í því felst sjálfvirkt innritunarviðtal við sjúklinginn áður en sérfræðingar Upplýsingamiðstöðvarinnar taka við spjallinu. Þá er sjúklingurinn spurður út í sjúkdómseinkenni og áhættuþætti en kerfið þekkir yfir 1.200 læknisfræðileg málefni og kann að spyrja yfir 5.500 spurninga, bæði á íslensku og ensku.

Þykir reynslan af þjónustunni sýna að hægt sé að leysa úr sífellt stærri hluta erinda með fjarlausnum. Var samningur um áframhaldandi samstarf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Dicino undirritaður í dag.

Sparar tíma sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks

„Á endanum snýst þetta um að nýta tæknina með ábyrgum hætti í þágu almannaheilla. Það er engin sjálfvirk ákvarðanataka varðandi meðferðina sjálfa heldur erum við hreinlega að spara eitt helsta verðmætið, sem er tími. Í þessu tilviki tími sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem skortur er á um allan heim,“ er haft eftir Steingrími Árnasyni, tæknistjóra Dicino.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert