Hækkun gagnist „fótafúnum“

Dóra Björt Guðjónsdóttir.
Dóra Björt Guðjónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir að fyrirhuguð hækkun bílastæðagjalda upp á 40% á gjaldsvæði 1 sé til þess fallin að beina ökumönnum í auknum mæli að bílastæðahúsum borgarinnar.

Aukinheldur er vonin sú að með þessu muni losna stæði fyrir „fótafúna“ sem geti nýtt stæðin og gengið styttri vegalengdir í vöru og þjónustu. 

Verðbólgan étur þetta fljótt upp 

Hún segir hækkunina hóflega og telur ólíklegt að hún hafi áhrif á verðbólgu. „Þetta er bara hækkun á gjaldsvæði 1 og ef fólk vill losna við hana þá nýtir það bílastæðahúsin. Þetta er hófleg hækkun og verðbólgan étur þetta fljótt upp,“ segir Dóra. 

En er það ekki til marks um verðbólgu að verð hækki um 40% og að gjaldskyldan sé einnig lengd, jafnvel þó þú segir að þetta sé hófleg hækkun?

 „Mér finnst að hófleg hækkun á einu verðsvæði innan borgarinnar hafi ekki stórfelld áhrif á verðbólgu. Ég tel svo ekki vera. Við erum að tala um afmarkað svæði í miðborg Reykjavíkur,“ segir Dóra. 

Byggist á gögnum um notkun 

Hún segir að ekki sé búið að taka saman hverju hækkunin á að skila í borgarsjóð. „Þetta byggist á gögnum um notkunina á þessum svæðum og það er verið að stilla gjaldskrána og tímann eftir því. Bílastæðahúsin eru oft vannýtt og hugsunin er að fleiri nýti sér þau en í staðinn skapist rými í gjaldsvæði 1 fyrir fótafúna sem þurfa að sækja sér verslun og þjónustu. Oft er það eldra fólk sem hefur minni tök á því að ganga langar vegalengdir,“ segir Dóra Björt.

Stöðumælavörður að störfum í miðborg Reykjavíkur.
Stöðumælavörður að störfum í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/RAX

Býst við áhrifum sem við viljum ná fram 

Er eitthvað sem segir að stæðin losni frekar fyrir fótafúna? Munu þeir sem nýta stæðin ekki vera þeir sem eru tilbúnir til að borga? 

„Við höfum séð að svona stillingar og aðlaganir hafa áhrif á hegðun. Ég býst við því að þetta muni hafa þau áhrif sem við viljum ná fram,“ segir Dóra Björt.  

Eins er fyrirhugað að lengja gjaldtökutímabilið frá 9-21 á virkum dögum og laugardögum í stað þess að tímabilið sé frá 9-18. Að auki verður rukkað fyrir notkun bílastæða á gjaldsvæðum 1 og 2 á sunnudögum. Þá verður tekinn upp hámarkstími notkunar á gjaldsvæði 1. Þannig verður að hámarki hægt að leggja í þrjár klukkustundir í þeim bílastæðum.  

Dóra segir að hugmyndin sé sú að beina ökumönnum að …
Dóra segir að hugmyndin sé sú að beina ökumönnum að bílastæðahúsum.

Eðlilegt að borgað sé fyrir notkun 

Hins vegar verður ekki rukkað fyrir gjaldsvæði 3 á laugardögum eins og verið hefur hingað til. Dóra segir að sjónarmiðin þar að baki snúi að því að eðlilegt sé að borgað sé fyrir að nýta borgarlandið. „Með þessu er ekki verið að breyta bílastæðahúsunum heldur er verðið óbreytt þar,“ segir Dóra. 

Hún segir gjaldskrárhækkunina ekki koma núverandi fjárhagsstöðu borgarinnar við, heldur sé þetta eldri tillaga sem rykið var dustað af eftir að eftirspurn eftir stæðum féll niður á Covid-tímum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert