„Hún á sér ekkert líf“

Afganskar konur í höfuðborginni Kabúl í mótmælagöngu í apríl síðastliðnum …
Afganskar konur í höfuðborginni Kabúl í mótmælagöngu í apríl síðastliðnum þar sem þær kröfðust aukinna réttinda. AFP

Erna Huld Ibrahimsdóttir, sem er frá Afganistan og hefur búið hér á landi í 13 ár, segir marga Afgana á Íslandi reyna hvað þeir geta til að fá hingað til lands skyldmenni sín. Þau eru mörg hver í mjög erfiðri stöðu í Afganistan vegna ógnarstjórnar talíbana, þar sem mannréttindi kvenna eru fótum troðin.

„Íslendingar sögðust ætla að taka á móti flóttafólki frá Afganistan á grundvelli fjölskyldusameiningar en það hefur ekkert breyst,“ segir Erna Huld, sem rekur túlkaþjónustu, spurð út í málið.

Rík­is­stjórn Íslands samþykkti í byrjun síðasta árs að taka á móti 35-70 manns frá Af­gan­ist­an, til viðbót­ar við þá 78 manns sem tekið var á móti frá landinu árið áður, vegna ástands­ins í kjöl­far valda­töku talíbana. Sérstaklega var horft til kvenna í viðkvæmri stöðu. Umsóknir um fjölskyldusameiningu við Afgana búsetta hérlendis voru settar í forgang. 

Erna Huld (til vinstri) og systir hennar Zahra. Sú síðarnefnda …
Erna Huld (til vinstri) og systir hennar Zahra. Sú síðarnefnda hefur dvalið á Íslandi í sjö ár. mbl.is/Ásdís

Tvær ógiftar frænkur í vanda

Sem dæmi bendir Erna Huld á að mjög erfitt sé að fá systkini til Íslands sem eru eldri en 18 ára og foreldra sem eru yngri en 67 ára. Systir hennar er loksins núna komin með eins árs dvalarleyfi á Íslandi, en Erna Huld á aðra systur, Zahra, sem hefur búið hérlendis í sjö ár. Auk þess kveðst Erna Huld hafa áhyggjur af tveimur frænkum sínum í Afganistan sem eru ekki giftar. Eins og reglurnar eru núna geta þær aftur á móti ekki farið til Íslands.

„Frænkur mínar eru bara lítið dæmi um þessar milljónir kvenna sem búa í Afganistan sem berjast daglega við að lifa af,“ segir Erna Hrund.

Karlmaður þarf að vera með í för

„Konum sem eru ekki giftar og eiga ekki mann, eða pabba sem er ekki á lífi, er ekki leyft að koma hingað,“ bætir hún við og segir sérstaklega erfitt fyrir slíkar konur að búa í Afganistan. „Hvaða hlutverki hafa þær að gegna í lífinu? Þær mega ekki stunda nám, þær mega ekki vinna og mega ekki fara út án þess að karlmaður sé með í för,“ segir Erna Huld um frænkur sínar og segir þær hræddar við að fara út.

Önnur þeirra er heyrnarlaus og hefur engan sem hún getur treyst til að fara með sér út úr húsi. „Hún er alltaf inni í húsinu. Hún getur ekkert farið og enginn getur talað fyrir hennar hönd. Hún á sér ekkert líf.“

Erfitt að fá vegabréfsáritanir

Erna Huld segir íslensk stjórnvöld lítið hafa beitt sér í þessum málum þrátt fyrir loforð þess efnis. Hún segir reglurnar varðandi Afgana sem hingað koma vera óskýrar og nefnir jafnframt að erfitt hefur reynst fyrir Afgana að fá vegabréfsáritanir í nágrannalöndunum. Sérstaklega segir hún erfitt fyrir konur sem eiga ekki mann að komast úr landinu því þær þurfa undirskrift frá karlmanni. „Svona konur eru eins og hluti af skreytingum í húsum, þær eru ekki lifandi verur í hugum talíbana,“ greinir hún frá.

„Ég veit að allar afganskar konur geta ekki farið frá Afganistan, en áhyggjur mínar snúast um þá þögn sem ríkir um málefni kvenna í landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka