Nauðsynlegt að skoða umdeilda virkjanakosti

Guðlaugur Þór Þórðarson fylgdist með fundi í tölvu eftir árangurslausar …
Guðlaugur Þór Þórðarson fylgdist með fundi í tölvu eftir árangurslausar tilraunir til að fljúga vestur. Ljósmynd/Aðsend

Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun og Vatnsdalsvirkjun innan friðlands í Vatnsfirði eru meðal þeirra kosta sem starfshópur hvetur til að skoðaðir séu af fullri alvöru.

Nauðsynlegt sé að auka orkuframboð á Vestfjörðum um 80% fram til ársins 2030 til þess að bregðast við fyrirsjáanlegri aflþörf.

Starfshópur um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum, sem skipaður var af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skilaði skýrslu sinni í Félagsheimilinu Birkimel, í Krossholti á Barðaströnd í dag.

Ráðherra fylgdist með kynningunni með fjarfundarbúnaði eftir árangurslausar tilraunir til þess að lenda á Bíldudal í dag. 

Tíminn er naumur

Leggur nefndin mikla áherslu að tíminn sé naumur. Í raun hafi Vestfirðingar ekki nema sex til sjö ár að afla 80% meiri raforku. Þótt verkefnið sé skýrt áttar nefndin sig á að væntanlega séu allar lausnir í vatnsaflsvirkjunum umdeildar.

Nefndin hafði til grundvallar mati sínu skýrslu starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum frá apríl 2022. Samkvæmt henni  er núverandi aflþörf á Vestfjörðum er 44 MW.

Orkuskiptin ein og sér kalla á 15 MW, áætluð fólksfjölgun og frekari umsvif atvinnulífs 12 MW og ný kalkþörungaverksmiðja á Súðavík þarf 8 MW. Viðbótaraflþörf er því 35 MW og heildaraflþörfin á Vestfjörðum árið 2030 er því áætluð 79 MW.

Jarðhiti í stað dísilolíu

Leggur nefndin til að sérstöku fé verði varið af fjárlögum til jarðhitaleitar. Eru þrjú svæði í augnablikinu sérstaklega undir. Í Tungudal við Skutulsfjörð, á Patreksfirði og á Gálmaströnd sunnan við Hólmavík.

Á Vestfjörðum eru nú starfræktar víða fjarvarmaveitur, sem búa við skerðanlega raforku og eru því oftar en ekki keyrðar áfram með dísilolíu. Á síðasta ári nam olíunotkun fjarvarmaveitna um 2,1 milljónum lítra sem svarar til eldsneytisáfyllingar á 40 þúsund bensín- eða dísilbifreiða. Leggur því nefndin til að með jarðhita mætti fasa út notkun jarðefnaeldsneytis til húshitunar á Vestfjörðum fyrir árið 2030.

Orkuskipti í sjávarútvegi

Lagði nefndin mat á hvernig orkuskiptin munu helst birtast í vestfirskum sjávarútvegi eigi áætlanir um kolefnishlutleysi ná fram að ganga fyrir árið 2040. Líklegt er að strandveiðibátar og smærri bátar skipti út jarðefnaeldsneyti fyrir rafhlöður að stærstum hluta.

Fiskeldisbátar munu notast við rafhlöður að stórum hluta og brunnbátar munu að öllum líkindum verða tengdir við landstaum á meðan dælingu stendur. Orkunotkun á höfnum í dag sé því aðeins brot af því sem verður þegar fullum orkuskiptum verður náð.

Nefndina skipuðu Einar K. Guðfinnsson, formaður; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðabæjar; Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð og Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sem var starfsmaður hópsins.

Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri …
Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Einar K. Guðfinnsson, sem var formaður hópsins. Ljósmynd/Aðsend
Frá fundi í félagsheimilinu Birkimel, í Krossholti á Barðaströnd í …
Frá fundi í félagsheimilinu Birkimel, í Krossholti á Barðaströnd í dag. Ljósmynd/Vestfjarðarstofa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert