Umfangsmiklar breytingar í leikskólum í Kópavogi

Andri Steinn Hilmarsson, fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi í starfshóp …
Andri Steinn Hilmarsson, fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi í starfshóp um leikskólamál. Myndin er samsett. Ljósmynd/Aðsend, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrr í vikunni voru tillögur starfshóps um leikskólamál í Kópavogi samþykktar. Breytingarnar hafa ýmislegt í för með sér, eins og sex gjaldfrjálsa tíma á dag, fækkun opinna leikskóla á frídögum og heimgreiðslur til foreldra.

Fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar í starfshópnum segir breytingarnar vera gerðar til þess að bæta starfsumhverfi leikskóla, finna leiðir til þess að útfæra styttingu vinnuviku hjá starfsfólki, til þess að skerða þjónustu sem minnst, og fækka veikindadögum.

Frídögum fjölgar um níu til ellefu á ári

Hvað varðar fækkun opinna leikskóla á frídögum verður leikskólum lokað í níu til ellefu daga á ári til viðbótar við það sem nú þekkist. Lokanirnar verða á milli jóla og nýárs, í dymbilviku og vetrarfríum.

Í staðinn verður foreldrum boðið að koma með barnið sitt á einn þeirra leikskóla sem verða opnir sem verða að minnsta kosti tveir til fimm, en samtals rekur Kópavogur 19 leikskóla, auk þess sem einn er þjónusturekinn og tveir eru einkareknir. Þá mun starfsmaður af venjulega leikskóla barnsins fylgja því á þann nýja. 

„Það er ekki verið að skella í lás á leikskólunum, alls ekki, heldur erum við að koma í veg fyrir að það séu of margar deildir opnar á meðan börnum fækkar í skólanum. Þess vegna er gerð þessi tillaga um að það verði færri leikskólar opnir og að starfsmenn frá öllum leikskólum fylgi þá börnunum sem fara á þá leikskóla sem eru opnir, það er að segja milli jóla og nýárs, í dymbilviku og vetrarleyfum,“ segir Andri Steinn Hilmarsson, fulltrúi meirihlutans í fyrrnefndum starfshópi í samtali við mbl.is, þegar hann er spurður út í fjölgun daga með skertri þjónustu.

Þá sé ekki verið að loka leikskólum þannig að börn þurfi að vera heima, heldur færa börnin sem mæti á fámennum dögum á sömu leikskólana svo fleiri séu á hverjum stað. Börnunum fylgi alltaf starfsmaður af eigin leikskóla en lokað verði á móti annars staðar.

Í raun sé verið að skerpa á rekstri leikskólanna þessa daga sem lokanirnar eru. 

Ákveðið óhagræði en leysir líka stöðuna í kerfinu

Þegar því er velt upp að tilfærsla barna á annan leikskóla geti valdið veseni fyrir foreldra sé leikskólinn lengra frá heimilum, játar hann það.

„Já, alveg hiklaust, þetta er auðvitað ákveðið óhagræði þessa daga sem lokanirnar eru með þessum hætti en það þarf einhvern veginn að leysa þessa stöðu sem er uppi í leikskólakerfinu í dag. Við erum ekki að leika okkur að þessum lokunum, alls ekki, en eins og ég segi, þetta er að hluta til þessi útfærsla á vinnutímastyttingunni sem er löngu ákveðin. Þetta er sú leið sem við teljum að valdi minnstri þjónustuskerðingu fyrir foreldra.“

Verið að bregðast við styttingu vinnuviku

Spurður hversu margir dagarnir með skertri þjónustu verði, segir hann það fara eftir því hvernig almanaksárið raðist upp hverju sinni.  

„Þetta eru níu til ellefu dagar á ári, þá eru leikskólar opnir eftir þörfum.“

Hann segir að með breytingunum sé verið að reyna að leita lausna til þess að koma til móts við kjarasamningsbundna styttingu vinnuviku hjá leikskólastarfsmönnum. Leikskólar í Kópavogi hafi kosið fulla styttingu, sem jafngildi fjórum klukkustundum á viku á hvern starfsmann.

39 veikindadagar á hvert stöðugildi í fyrra

„Við erum í einhverri viðleitni við að reyna að leysa þessi mál af því þetta er bara frekar erfið staða. Við erum líka að glíma við mjög marga veikindadaga í leikskólunum, það er þannig að á hvert stöðugildi eru skammtímaveikindi 39 dagar á síðasta ári. Þannig við erum að reyna að létta aðeins á álaginu og erum að vonast til þess að með betra starfsumhverfi fyrir leikskólakennara og starfsmenn á leikskólunum, þá náum við veikindadögum niður og náum að sama skapi að ráða í þær stöður sem eru lausar hjá okkur í Kópavoginum og laða fólk til starfa,“ segir Andri.

Þá sé einnig verið að bregðast við því hversu illa gangi að manna leikskóla í Kópavogi, eins og annars staðar.

„Það hefur í för með sér, sem dæmi, mjög ófyrirsjáanlegar lokanir á deildum þegar upp koma skyndileg veikindi, eða það er að segja bara veikindi sem eru tilkynnt að morgni. Þá er allt í einu komin upp sú staða að það eru of fáir starfsmenn á einstaka deildum til að halda úti starfseminni.

Ofan á það blandast líka vinnutímastytting, þannig að þá er kannski hluti starfsmanna að fara fyrr heim út af vinnutímastyttingu og þá þarf hreinlega að loka einhverjum deildum á leikskóla og foreldrar þurfa að sækja börnin sín fyrr. Þetta er gjörsamlega óviðunandi staða og við erum, eftir mikla rýni, að leggja til leiðir sem við teljum að séu til þess fallnar að verja þjónustustig á leikskólum í Kópavogi,“ segir Andri.

„Gríðarlega umhugað um að þetta takist vel til“

Hvað varðar vinnu starfshópsins og samráð við foreldra, segir hann vinnu hans hafa hafist í febrúar og að tveir upplýsingafundir hafi verið haldnir af starfsmönnum leikskólasviðs með fulltrúum foreldraráða leikskóla í Kópavogi. Á annan fundinn hafi fulltrúar 11 foreldraráða af 21 mætt og á hinn 13 af 21. Fundirnir hafi verið haldnir snemma í ferlinu og þegar tillögurnar hafi verið langt komnar. 

„Okkur er gríðarlega umhugað um að þetta takist vel til. Það vakir ekkert annað fyrir okkur í þessari vinnu en að bæta leikskólaumhverfið í Kópavogi. Ég er sannfærður um að þau skref sem er verið að stíga séu í þá átt,“ segir Andri.

Spurður um athugasemdir frá foreldrum og öðrum, segir hann fólk eðlilega enn vera að kynna sér málin en eflaust muni fleiri spurningar vakna á næstu dögum og vikum.

„Þetta er þjónusta við börn og mikilvægt að velferð barna sé höfð algjörlega að leiðarljósi, en til þess að við getum veitt foreldrum þessa þjónustu, sem er auðvitað gríðarlega mikilvæg, að þá þurfum við líka að hafa starfsfólk og hafa starfsfólkið ánægt. [...] Markmiðin eru alveg skýr, við erum að reyna að efla þetta leikskólaumhverfi og það er í þágu meðal annars foreldra. Ég held að fólk geri sér grein fyrir því og sé nokkuð spennt fyrir því að sjá hvaða áhrif þessar breytingar munu hafa. Stærsta breytingin er auðvitað þetta með sex tíma gjaldfrjálsa á leikskólum í Kópavogi og sjöundi og áttundi tíminn fari stighækkandi. Þessum tillögum heilt yfir hefur verið vel tekið og fólk er spennt að sjá hvað breytingarnar munu hafa í för með sér,“ segir Andri.

Hann nefnir að allur starfshópurinn standi saman á bak við tillögurnar. Í starfshópnum sátu fulltrúar víða að, til dæmis fulltrúi foreldraráða, félags leikskólakennara og sviðsstjóri menntasviðs. 

Spurður hvernig breytingarnar komi út fjárhagslega fyrir bæinn, segir hann ekki um hagræðingartillögur að ræða.

„Þetta eru ekki hagræðingartillögur, þetta eru tillögur til þess að bæta þjónustuna,“ segir Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka