Aðgerðir í leikskólamálum tengjast mönnunarvanda

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, segir nýjar tillögur um breytingar á tilhögun leikskólamála í bænum, vera viðbragð bæjaryfirvalda við álagi á leikskóla bæjarins. Erfitt sé að sinna auknum verkefnum samhliða styttri vinnuviku. 

Leikskólinn búi við mönnunarvanda, sem leiði til þess að grípa þurfi til lokana deilda og jafnvel til þess að börn séu send fyrr heim. „Slík þjónustuskerðing er óviðunandi fyrir foreldra og börn“, segir Ásdís í samtali við mbl.is

Umbunað fyrir minni viðveru

Tölur um fyrirhugaða hækkun hafa valdið bæjarbúum áhyggjum. Ásdís segir að „ég skil vel að fólki bregði við að heyra að gjaldskrár utan þessara sex tíma muni hækka. En við teljum þetta nauðsynlega aðgerð til að fólk geti treyst þvi að barnið þeirra fái trygga leikskólavist.“

Eitt af nýmælum bæjarins er að leikskóli verður gjaldfrjáls fyrir þau börn sem dvelja 6 tíma eða skemur í leikskóla á degi hverjum. Nú eru aðeins 1% barna í leikskólum Kópavogs sem falla í þennan hóp samkvæmt tölum sem mbl.is fékk frá bænum. Um þessa tillögu segir Ásdís:

„Samhliða þessum breytingum ætlum við einnig að tryggja mikinn sveigjanleika. Við erum að skapa hvata fyrir foreldra til að nýta sér þann sveigjanleika. Sem dæmi gætu foreldrar verið tvo daga í viku gjaldfrjálsa, en átta tíma viðveru í þrjá daga, þannig næst að stytta meðalvistunartíma og lækka gjöldin.“

Hugsað um viðkvæmari hópa

Blaðamaður spyr Ásdísi hvort þessar lausnir gagnist öllum bæjarbúum, sem margir hverjir eru launafólk og eigi erfiðara með að stjórna eigin vinnutíma. Ásdís svarar því:

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að við ætlum að mæta þeim hópi, sem hefur ekki tök á því að stytta dvalartíma barna. Við ætlum að grípa vel og vandlega hóp tekjulágra, sem hafa lítinn sveigjanleika í vinnutíma. Það gerum við með tekjutengdum afsláttum. Þannig getum við gripið einstæða foreldra og efnaminni heimili. Viðmiðið þar eru 750 þúsund krónur fyrir einstaklinga sem fá reiknaðan 40% afslátt. 980 þúsund er svo viðmiðið fyrir tekjulága foreldra.“

Frídögum leikskóla fjölgar

Kópavogur mun fjölga frídögum leikskóla umtalsvert, þannig að lokað verði almennt á leikskólum í dymbilviku og á milli jóla og nýárs, svo dæmi séu tekin. Ekki eru þó öllum leikskólum lokað á þeim tíma heldur munu 2-5 enn taka á móti börnum úr sveitarfélaginu.

„Þetta verður metið eftir þörfinni. Það verður ekki lokað á nein börn. Starfsfólk, sem börnin þekkja, mun fylgja á þá leikskóla sem haldið verður opnum.“

Tilraun til eins árs

Ásdís segir að Kópavogsbær sé að huga að leiðum til að mæta styttingu vinnuviku starfsfólks. Í dymbilviku og á milli jóla og nýárs séu færri börn að jafnaði að mæta í leikskóla. Þess vegna er verið að sameina starf á færri leiksóla svo að starfsfólk geti safnað upp vinnutímastyttingu og tekið hana út á þessum tíma. 

„Þegar stytting vinnuvikunnar var hugsuð átti hún ekki að hafa áhrif á þjónustuna né bera aukinn kostnað í för með sér. Það sjá það auðvitað allir að það gengur ekki upp, að sjálfsögðu hefur stytting vinnuvikunnar áhrif. Leikskólar gegna mikilvægu hlutverki, ekki aðeins sem fyrsta skólastig heldur sem þjónusta við foreldra. Við erum að setja börn í fyrsta sæti og teljum að við séum að efla leikskólastarfið með þessum aðgerðum.“

„Þetta er tilraunaverkefni til eins árs. Við verðum áfram í samráði við foreldra og starfsfólk. Ef það koma ábendingar, þá munum við auðvitað bregðast við þeim“, segir Ásdís að lokum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert