Bendi fremur til jarð­hita­virkni en kviku­hreyfinga

Múlakvísl í morgun.
Múlakvísl í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson Fagradal

Klukkan 6.30 í morgun höfðu rúmlega 95 skjálftar mælst í Mýrdalsjökli en jarðskjálftavirknin er sú mesta á svæðinu síðan um haustið 2016. Fólki er ráðlagt að vera ekki á ferli nærri upptökum Múlakvíslar og við Kötlujökul næstu daga.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Skjálftahrinan sem nú gengur yfir hófst klukkan 1.18 í nótt en samkvæmt nýjustu upplýsingum mældust átta skjálftar yfir 3 stigum að stærð og sá stærsti var 4,4.

Fram kemur að mælingar í Múlakvísl sýni aukningu í rafleiðni og er hún sögð óvenju há miðað við árstíma. Þá sýni gasmælir á Láguhvolum aukningu í jarðhitagasi en túlkun mælinga bendi fremur til jarðhitavirkni en kvikuhreyfinga þó ekkert hafi verið útilokað.

Líkur eru á vatnavöxtum í Múlakvísl vegna aukins hlutfalls jarðhitavatns í ánni. Gasmengun við ána getur fylgt jarðhitavatni. Um helgina má búast við hægri breytilegri átt á svæðinu og því getur gas safnast fyrir. Næstu daga má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli. Jarðskjálftar auka líkur á berg- og íshruni. Fólki er ráðlagt frá að vera á ferli nærri upptökum Múlakvíslar og við Kötlujökul,” segir á vef Veðurstofunnar um stöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert