Vegagerðin hefur komið upp gröfu við Múlakvísl til að bregðast við mögulegu hlaupi. Mun grafan ryðja þjóðveg 1 til að bjarga brúnni yfir ána, komi til hlaups.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, segir afar ólíklegt að komi til þessara neyðarráðstafana en gröfunni hafi verið komið upp til vonar og vara.
Hún hefði verið staðsett nálægt svæðinu og færð nær ánni ef svo ólíklega vildi til að vatnsflæði myndi aukast óhóflega.
Ef kæmi til hlaups þá væri grafan tilbúin til að rjúfa þjóðveg 1 svo að brúin myndi örugglega halda velli.
„Ég tel þetta mjög ólíklegt. Þetta eru bara öryggisráðstafanir og því grafan var þarna rétt hjá þá var allt í lagi að færa hana nær. Hún verður svo bara færð aftur til baka,“ segir Pétur.
Aukin rafleiðni hefur mælst í Múlakvísl og er hún nú óvenjuhá miðað við árstíma. Gasmælir á Láguhvolum sýnir aukningu í jarðhitagasi.
Líkur eru á vatnavöxtum í Múlakvísl vegna aukins hlutfalls jarðhitavatns í ánni. Gasmengun við ána getur fylgt jarðhitavatni. Um helgina má búast við hægri breytilegri átt á svæðinu og því getur gas safnast fyrir.