Gylfi Sigurðsson, fyrrverandi leikmaður Everton og íslenska landsliðsins, hefur ákveðið að höfða ekki skaðabótamál á hendur breskum yfirvöldum í tengslum við rannsókn sem hann sætti í 637 daga hjá lögreglunni í Manchester vegna gruns um kynferðisbrot.
„Eftir vandlega athugun hefur Gylfi ákveðið að horfa fram á við. Að óbreyttu hyggst hann því láta hjá líða að krefjast skaðabóta,“ segir Róbert Spanó, lögmaður Gylfa, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Gylfi var handtekinn í júlí árið 2021 og var laus gegn tryggingu, allt þar til málið var látið niður falla í apríl síðastliðinn. Alls liðu 637 dagar frá því hann var handtekinn og þar til málið var loks látið niður falla. Gylfa var sleppt gegn tryggingu a.m.k. sjö sinnum á meðan málinu var frestað. Sætti hann farbanni á meðan rannsókn stóð.
Ljóst er að Gylfi varð af talsverðum fjármunum þar sem hann var samningsbundinn Everton þegar rannsókn hófst. Þá hefur knattspyrnuferill hans beðið hnekki. Róbert Spanó sagði við mbl.is í apríl að Gylfi íhugaði málsókn.
„Að mínu mati er ljóst að meðferð málsins í Bretlandi tók allt of langan tíma í ljósi aðstæðna. Það hefur valdið Gylfa og fjölskyldu hans umtalsverðu tjóni auk gríðarlegs miska.
Á næstu dögum mun hann fá lögfræðilega ráðgjöf um hvort tilefni sé til þess að hann leiti réttar síns fyrir breskum dómstólum,“ sagði Róbert við mbl.is í apríl.
Eins og fram hefur komið hyggst enska úrvalsdeildarliðið Everton sækja bætur vegna málsins og krefst 10 milljóna punda eða sem nemur um 1,7 milljörðum króna.