Hækka verð þar sem notkunin er yfir 85%

Gjaldskráin hugsuð þannig að það séu laus stæði og á …
Gjaldskráin hugsuð þannig að það séu laus stæði og á sama tíma að stæði séu vel nýtt. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Gjaldskráin er hugsuð þannig að það séu laus stæði, en á sama tíma að þau séu vel nýtt,“ segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir samgöngustjóri hjá Reykjavíkurborg. Hún segir breytinguna stuðla að því að „þeir sem eiga erindi í bæinn séu í meiri vissu um að finna stæði

Reykja­vík­ur­borg ákvað á dögunum að hækka bíla­stæðagjöld á gjaldsvæði 1 um 40% í miðborg Reykja­vík­ur. Þá verður tími gjald­töku lengd­ur frá 18 til 21 á virk­um dög­um og laug­ar­dög­um. Eins verður tek­in upp gjald­skylda á sunnu­dög­um á gjaldsvæðum 1 og 2.

Ekki ljóst hvenær hækkunin tekur gildi 

Guðbjörg segir hækkunina ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi í september. Röð aðgerða ræður því hvenær nákvæmlega það verður, fyrst þarf að skipta út merkingum, gera breytingar í kerfunum og fleira. 

Ákvörðunin byggir á talningu sem miðar að því að kortleggja notkun stæðanna. Ef meira en 85% stæðanna er í notkun á hverjum tíma þykir ástæða til þess að gera breytingar, hvort sem það er að koma á gjaldskyldu eða hækka gjald. Á sama hátt getur þótt ástæða til þess að lækka gjald eða afnema það ef notkun stæðanna fer undir 60% segir Guðbjörg.

Hugsuð þannig að það séu laus stæði

Eruð þið hrædd um að fólk hætti að leggja leið sína í miðbæinn? 

„Við höfum engar áhyggjur af því. Í rauninni teljum við ekki að hækkun á þessu tiltekna svæði komi í veg fyrir að fólk sem á erindi í bæinn, fari í bæinn. Þetta ætti frekar að stuðla að því að þeir sem eiga erindi í bæinn séu í meiri vissu um að finna stæði“

Hefur komið til tals að hækka gjaldtöku á öðrum svæðum?

„Gjaldskráin er hugsuð þannig að það séu laus stæði, en á sama tíma að þau séu vel nýtt. Þess vegna teljum við og fylgjumst með. Í rauninni á meðan nýtingin er á milli 60-80% þá erum við sátt með gjaldskránna“ 

Ekki einungis horft til þess að hækka gjaldið

Gæti þetta stuðlað að því að gjald hækki á öðrum gjaldsvæðum?

„Þetta gæti stuðlað að því. Það er það sem við horfum á þegar við leggjum til að hækka gjaldskránna, þá horfum við á önnur gjaldsvæði og veltum fyrir okkur hvort að við þurfum að hækka gjald þar líka.“

Í þessu samhengi er verið að horfa til þess hversu margir færa sig á önnur gjaldsvæði, hugsanlega ráða þau svæði við aukninguna. Ef ekki þá getur komið til tals að hækka gjald á þeim svæðum. Guðbjörg segir þó margt hafa áhrif á nýtingu stæðanna, til að mynda breytingar í atvinnurekstri. 

Guðbjörg segir jafnframt vel koma til greina að lækka gjald ef stæði eru lítið nýtt. Það má til dæmis sjá á því að gjaldskylda er felld niður á laugardögum á gjaldsvæði þrjú, enda kom í ljós í talningu að nýtingin þar var ekki mjög mikil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert