Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, biður fólk um að sýna skynsemi og nærgætni ætli það sér að bera rostung augum sem hefur komið sér fyrir á bryggjunni á Sauðárkróki. Rostungurinn kom í gærkvöldi og var svæðinu í kring þá lokað.
„Hann er bara þarna í makindum sínum,“ segir Birgir í samtali við mbl.is. Ekki er mælst til þess að fólk sé að koma nær dýrinu en 100 metrum, að sögn Birgis.
„Svo reynum við bara að fylgjast með. Það er svo sem ekkert annað hægt að gera þannig. Það er engin sérstök umferð báta þarna um helgina,“ segir Birgir.
Að því leyti hafi rostungurinn komið á ágætis tíma.
„Við getum ekki verið með vakt þarna að svo komnu máli. Fólk verður bara að sýna skynsemi og sýna dýrinu ákveðna nærgætni,“ segir Birgir. Hann segir að fólk hafi hingað til virt lokanirnar og verið til fyrirmyndar.
„Auðvitað er fólk svolítið forvitið. Það er ekki á hverjum degi sem svona skeppna kemur á land,“ segir Birgir.
Sjálfur ætlar hann að skoða dýrið úr öruggri fjarlægð í dag enda aldrei séð rostung áður nema á myndum.
„Enda hættir maður sér ekki of nálægt gini ljónsins, ef segja má sem svo,“ segir Birgir léttur í bragði.
Miðað við tilvik annars staðar á landinu þar sem rostungar hafa hreiðrað um sig í byggð segir Birgir að dýrið gæti verið á bryggjunni í einhverja daga.
Hann ítrekar að lögregla mælist til þess að lögregluborði sé virtur og það sé ekki verið að fara nálægt dýrinu. Friðheldi dýrsins eigi að vera virt.