Rafleiðni fer stígandi í Múlakvísl og mikið vatn er í ánni. Talið er að þetta tengist jarðskjálftahrinu næturinnar.
Þetta staðfestir náttúruvársérfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands.
Fréttaritari mbl.is var á ferð yfir Múlakvísl í morgun og tók eftirfarandi myndir, en samkvæmt honum er meira vatn í ánni en venjulega.
Skjálftahrina hófst í nótt klukkan 1.18. Um var að ræða meira en sjötíu skjálfta og sá stærsti var 4,4 að stærð.
Þegar mbl.is ræddi við náttúruvársérfræðing á vakt fyrr morgun sást ekkert á mælitækjum Veðurstofunnar sem gaf til kynna aukningu í rafleiðni eða vatnshæð.