Rostungur liggur á bryggju á Sauðárkróki

Rostungurinn hefur komið sér vel fyrir. Samsett mynd.
Rostungurinn hefur komið sér vel fyrir. Samsett mynd. Ljósmynd/Helgi Vagnsson

Rostungur hefur komið sér fyrir á bryggju í smábátahöfninni á Sauðárkróki. Íbúi á svæðinu segir dýrið hafa komið sér upp á bryggjuna rétt eftir miðnætti. Margt fólk hafi gert sér ferð í nótt og fyrir vinnu í morgunsárið til þess að sjá rostunginn. 

„Hann sést þarna rétt eftir miðnætti í gær og litli bróðir minn og einhverjir fóru, hann tekur myndirnar en ég sá þetta ekki fyrr en í morgun," segir Anna Baldvina Vagnsdóttir, íbúi á Sauðárkróki í samtali við mbl.is. Rostungurinn sé mjög nærri landi. 

Hún segir lögregluna búna að girða fyrir bryggjuna sem hann liggur á en fólk geti farið út á aðrar bryggjur í kring. 

Ljósmynd/Helgi Vagnsson

„Hann er bara mjög slakur“

„Það er mjög mikið af fólki að koma að kíkja á hann svona í morgunsárið áður en það fer í vinnuna,“ segir Anna. 

Hún segir virðast allt í lagi með rostunginn en hann liggi bara slakur. 

„Hann er bara mjög slakur þarna, lítur upp af og til svo bara leggst hann útaf, flatmagar þarna,“ segir Anna. 

Ljósmynd/Helgi Vagnsson

Hún segist vonast til þess að hann muni koma aftur í heimsókn til bæjarins en rostungurinn sé stærri en hún hélt. 

„Við skulum vona að hann komi einhverntímann aftur, þetta er skemmtilegt og skemmtilegt að upplifa. Þetta er miklu stærra heldur en maður hélt [...] Maður heldur að þetta séu svo stirð og þung dýr en að hann komist upp á, það finnst mér alveg magnað en svo eru þetta víst miklu liprari dýr en maður heldur,“ segir Anna. 

Ljósmynd/Helgi Vagnsson
Ljósmynd/Helgi Vagnsson
Ljósmynd/Helgi Vagnsson




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert