„Ef vel gengur þá gerum við ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Þeim myndi vonandi ljúka fyrir árslok 2024 en gætu dregist aðeins inn á 2025.“
Þetta segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, framkvæmdastjóri Landsnets, um væntanlegar framkvæmdir að Suðurnesjalínu 2.
Eins og áður hefur verið greint frá samþykkti bæjarstjórn Voga lagningu Suðurnesjalínu 2 um land sveitarfélagsins, en sveitarfélagið og Landsnet hafa lengi deilt um línuleiðina. Landsnet vildi setja upp loftlínu en bæjarstjórn Voga vildi leggja strenginn í jörðu.
Guðmundur og Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga, skrifuðu undir samkomulag klukkan 13 í dag um lagningu línunnar. Í samkomulaginu felst að Suðurnesjalína 2 verði loftlína og að Suðurnesjalína 1 verði tekin niður í öllu sveitarfélaginu og lögð í jörð.
Spurður hvað framkvæmdir við að leggja Suðurnesjalínu 1 niður í jörðu muni kosta mikið aukalega ofan á fyrirhugaðar framkvæmdir að Suðurnesjalínu 2 segir Guðmundur að það muni kosta rúmlega 500 milljónir aukalega.
„Við lítum á það sem flýtingarkostnað á verkefninu því við trúum því að hérna verði ákveðin þróun í sveitarfélaginu sem við erum að mæta. Þó að þessi upphæð sé há er hún kannski minna en ella út af því.“
Guðmundur segir sig og aðra hjá Landsnet vera ánægða með niðurstöðuna og ítrekar mikilvægi Suðurnesjalínu 2 fyrir allt svæðið bæði fyrir atvinnurekstur og vegna mikillar fólksfjölgunar.
„Þetta er ásættanleg niðurstaða fyrir okkur og mjög mikilvægt fyrir svæðið hérna að komast loksins í öryggið. Þetta er stór dagur fyrir okkur og í raun þjóðina alla. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum frá aðilum sem vilja byggja upp hérna sem hefðum þurft að takmarka vegna rafmagnsöryggis og takmarkana á flutningsgetu.“
Spurður hvers konar rekstur sækist mest eftir því að byggja upp starfsemi á Suðurnesjum segir Guðmundur:
„Hér eru aðstæður mjög ákjósanlegar fyrir ýmsa starfsemi. Landeldi sem dæmi. Það er lífefnaiðnaður hérna sem er að þróast. Þriðjungur af fyrirspurnum sem koma til okkar eru frá fyrirtækjum sem vilja koma sér fyrir hér. Það er landeldi og gagnaver og ýmislegt annað eins og til dæmis mikið frá ferðamannaþjónustunni með tilliti til hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla.“
Hann segir að búast megi við að landeldi aukist mjög mikið á svæðinu eftir að Suðurnesjalína 2 komi upp.
Að hans sögn mun rafmagnsöryggi verða tryggara en áður með þessari útfærslu á Suðurnesjalínu 1 og 2. Þá verður mögulegt að flytja töluvert meiri orku á svæðið og tryggja öryggi betur. „Nú getum við misst út eina línu án þess að það verði rafmagnslaust á Reykjanesi.“