Skjálftahrina hófst í Mýrdalsjökli klukkan 1.18 í nótt. Meira en 70 skjálftar hafa mælst og sex skjálftar yfir þremur að stærð. Þá var stærsti skjálftinn 4,4 að stærð. Náttúruvársérfræðingur segir virknina geta sveiflast áfram.
„Fyrsta hrina fór af stað í svona þrjú korter, svo var smá hlé og svo fór hún af stað aftur. Þetta eru svona um sjötíu skjálftar sem hafa mælst frá klukkan 1 í nótt. Það voru fimm skjálftar yfir þremur að stærð og einn yfir fjórum af stærð og stærsti skjálftinn 4,4 að stærð klukkan 2.45. Ekki mælst neinn órói eða neitt svona og skjálftar hafa líka fundist í byggð, aðallega Þórsmörk,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis í samtali við mbl.is. Vert er að nefna að annar skjálfti mældist á meðan Bjarki spjallaði við fréttamann og virtust fyrstu niðurstöður benda til þess að hann væri yfir þremur að stærð.
„Þetta tengist jarðhitakerfi sem er undir Mýrdalsjökli og við erum ekki að búast við gosi eða neinu svoleiðis,“ segir Bjarki.
Hann segir jarðhitavatn geta lekið út við Markarfljót eða Múlakvísl vegna virkninnar en eins og staðan sé sjáist ekki neitt í mælitækjum sem gefi til kynna aukningu í rafleiðni eða vatnshæð.
„Það er búin að vera virkni í Mýrdalsjökli í nokkrar vikur núna, þetta er bara sama virknin sem heldur áfram þarna en tengist líklegast jarðhitakerfunum sem eru undir jöklinum,“ segir Bjarki.
„Þetta er ekki búið þannig séð, það fer svona upp og niður virknin,“ segir hann að lokum.