Matvælaráðuneytið hefur skilað minnisblaði til atvinnuveganefndar Alþingis þar sem gert er grein fyrir forsendum ákvörðunar Svandísi Svavarsdóttur matvælráðherra um tímabundna stöðvun á veiðum langreyða.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Minnisblaðinu var skilað í framhaldi opins fundar ráðherra með atvinnuveganefnd sem haldinn var 23. júní en 20. júní setti ráðherra bráðabirgðaákvæði við reglugerð um að hvalveiðar myndu ekki hefjast fyrr en 1. september á þessu ári.
Í minnisblaðinu er greint frá því að tilefni reglugerðarinnar sé afdráttarlaust niðurstaða sérfræðinga þess efnis að núverandi veiðiaðferðir á langreyðum uppfylli ekki kröfur um velferð dýra. Reglugerðin feli í sér vægasta úrræði sem völ væri á af þessu tilefni til að ná því lögmæta markmiði að tryggja velferð dýra við veiðar á langreyðum í samræmi við lög.
Einnig kemur fram að ákvörðunin sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum um dýravelferð og sé tekin á skýrum lagagrundvelli. Til grundvallar liggi umfangsmikil og ítarleg gögn um velferð dýra við veiðar á langreyðum ásamt mati sérfræðinga og ráðuneytisins á þeim.
Aðdraganda ákvörðunarinnar er þar einnig lýst og greint frá yfirgripsmikilli úttekt sem gerð hafði verið á veiðunum á síðastliðnu ári. Er þá ljóst að á öllum stigum hafi verið gætt að ganga ekki harðar fram en nauðsyn bæri til hverju sinni.
Voru það niðurstöður fagráðs að veiðarnar væru haldnar almennum annmarka sem nauðsynlegt væri að bæta úr áður en veiðar hefðust að nýju. Var það metið brýnt að fresta upphafi veiðanna tímabundið til að fá úr því skorið hvort veiðiaðferðir á langreyðum sem uppfylla viðmið laga fyrirfyndust eða hvort unnt væri að þróa slíkar aðferðir. Við afmörkun á tímalengd frestunarinnar væri valinn skemmsti tími sem talinn var raunhæfur til að ná því markmiði sem að var stefnt.