Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra, segir ekki hægt að túlka niðurstöður viðhorfskönnunar um hvort reisa eigi vindmyllur í Þykkvabæ öðruvísi en svo að veruleg andstaða ríki hjá íbúum sem búa næst svæðinu.
Meirihluti íbúa í Þykkvabæ er andvígur því að vindmyllur rísi á ný í innan við 5 kílómetra fjarlægð frá bænum. Jafnmargir eru hins vegar hlynntir og andvígir því að slíkar rafstöðvar rísi í meiri fjarlægð, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Eggert segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart.
„Í raun og veru hélt ég að fleiri væru andvígir þessu heldur en raunin var,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Það er verið að reisa þessar vindmyllur á grundvelli deiliskipulags sem er í gildi og var samþykkt þegar vindmyllurnar voru reistar sem stóðu þarna áður.
Nú liggur inni stjórnsýslukæra frá íbúum þarna niður frá varðandi það hvort þetta þurfi ekki að fara í nýtt umhverfismat. Ég held að sveitarfélagið sé ekki að fara að aðhafast neitt fyrr en við sjáum hvað kemur út úr því kæruferli.“
Hann bendir á að fyrirhugaðar framkvæmdir séu samkvæmt lögum og reglum þó svo að meirihluti íbúa sé mótfallinn þeim.
„Það er búið að gefa út framkvæmdaleyfi á grundvelli deiliskipulags sem er í gildi. Við vildum bara fá svart á hvítu viðhorf íbúanna til þessara framkvæmda.“
Spurður um þýðingu umræddrar könnunar segir Eggert hana í það minnsta upplýsa sveitarstjórn um hug íbúa. Ljóst sé að málið sé umdeilt.
„Sveitarstjórnin er upplýst svart á hvítu um hug íbúanna og þetta eru marktækar niðurstöður.“