„Þetta er eins í öllum samningum það er enginn fullnaðarsigur fyrir neinn en við höfum náð niðurstöðu sem kemur til móts við sjónarmið beggja aðila. Auðvitað er svona samkomulag alltaf málamiðlun en báðir aðilar geta vel við unað þessari niðurstöðu.“
Þetta segir Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga, um samkomulagið á milli Voga og Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2.
Eins og áður hefur verið greint frá samþykkti bæjarstjórn Voga lagningu Suðurnesjalínu 2 um land sveitarfélagsins, en sveitarfélagið og Landsnet hafa lengi deilt um línuleiðina. Landsnet vildi setja upp loftlínu en bæjarstjórn Voga vildi leggja strenginn í jörðu.
Gunnar og Guðmundur Ingi Ásmundsson, framkvæmdastjóri Landsnets, skrifuðu undir samkomulag klukkan 13 í dag um lagningu línunnar. Í samkomulaginu felst að Suðurnesjalína 2 verði loftlína og að Suðurnesjalína 1 verði tekin niður í öllu sveitarfélaginu og lögð í jörð.
Aðspurður segir Gunnar að þetta sé kjarni samkomulagsins og að í rauninni felist ekki fleira í samkomulaginu á milli þeirra.
„Í stað þess að það verði hér tvær loftlínur verður aðeins ein sem kemur til móts við meginsjónarmið bæjaryfirvalda sem er að draga sem mest úr ásýnd þessa verkefnis. Þetta er auðvitað svæði sem er gátt allra erlendra ferðamanna í landið,“ segir hann sem ítrekar að hann sé sáttur með að ásýnd Reykjanessins skerðist ekki með tveim loftlínum.
Gunnar segist vera ánægður með niðurstöðuna og fagnar því að framkvæmdir geti nú hafist vonandi sem fyrst. „Það er almenn sátt með niðurstöðuna og bæjarstjórn samþykkti veitingu framkvæmdarleyfis samhljóða.“
Hann bendir á að í samkomulaginu felist grunnur að því að tengja atvinnu í Vogum við aðal flutningskerfis Landsnets.
„Við erum að vinna að því að byggja upp atvinnustarfsemi hér sem mun þurfa slíkar tengingar. Við höfum verið að skoða grundvöll fyrir uppbyggingu Landeldis á Keilisnesi. Það er starfsemi sem kallar á mikla raforku.“
Hann segir samkomulagið í raun tryggja mun víðtækari hagsmuni en hagsmuni sveitarfélagsins. Að hans mati mun Suðurnesið í heild sinni og landið allt njóta góðs af þessu.
„Ég get ekkert sagt um það. Það er auðvitað þannig að svona ferli eru flókin og margir hagaðilar svo það verður að komast í ljós. Þessi niðurstaða mun hjálpa okkur að komast áfram í þessu máli,“ segir hann spurður hvort að hann vænti þess að landeigendur eða náttúruverndarsamtök komi til með að kæra niðurstöðuna.