Um 1,4 milljarðar í útgjöld lögreglu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, segir áætlaðan heildarkostnað við …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, segir áætlaðan heildarkostnað við leiðtogafundinn um 2 milljarða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Utanríkisráðherra Íslands, segir áætlaðan heildarkostnað ríkissjóðs og annarra opinberra aðila í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins, sem fór fram í Hörpu 16. og 17. maí, vera um 2 milljarða. Endanlegur raunkostnaður mun þó liggja fyrir á næstu vikum. 

Í skriflegu svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, segir að utanríkisráðuneytið hafi leitt undirbúningsvinnu að fundinum í samstarfi við forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, Isavia, önnur ráðuneyti og stofnanir.

Endanlegur raunkostnaður liggur ekki fyrir

Í kostnaðaráætlun lögreglu frá 9. mars var gert ráð fyrir að helstu útgjaldaliðir næmu samtals um 1,391 milljarð, en ráðuneytið gerði ráð fyrir um 472 milljónum króna í útgjöld.

Þá gerði Isavia ráð fyrir að samanlagður heildarkostnaður á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli næmi um 25 milljónum króna. 

Samkvæmt þeim tölum ætti heildarkostnaður að vera tæpir 1.9 milljarðar. 

Sundurliðun útgjalda

Hér fyrir neðan má sjá sundurliðun helstu útgjalda í svari ráðuneytisins, en endanlegur raunkostnaður liggur ekki fyrir að svo stöddu. 

Í kostnaðaráætlun lögreglu frá 9. mars var gert ráð fyrir að helstu útgjaldaliðir yrðu eftirfarandi:
     a.      Undirbúnings- og skipulagsvinna að undanskildum þjálfunarkostnaði: 240 millj. kr.
     b.      Þjálfunarkostnaður: 159 millj. kr.
     c.      Kaup og leiga á búnaði, þ.m.t. tækni- og hugbúnaður: 380 millj. kr.
     d.      Öryggisgæsla: 612 millj. kr.

Helstu kostnaðarliðir ráðuneytisins samkvæmt áætlun voru eftirtaldir:

     a.      Kostnaður við umgjörð fundarins: 165 millj. kr.
     b.      Laun og annar kostnaður vegna þess starfsfólks Stjórnarráðsins sem kom að undirbúningi og framkvæmd fundarins, þ.m.t. öryggisvottanir: Alls um 100 millj. kr.
     c.      Samgöngur: 82 millj. kr.
     d.      Kostnaður við leigu og kaup á nauðsynlegum búnaði, m.a. vegna túlkaþjónustu: Um 67 millj. kr.
     e.      Önnur aðkeypt þjónusta, þ.m.t. útsendingarkostnaður, listamenn og prentun: Um 58 millj. kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert