Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir merki um samdrátt ekki komin fram. Hins vegar sé töluverð óvissa í kortunum, ekki síst varðandi kjarasamninga.
Tilefnið er umfjöllun í Morgunblaðinu síðusta daga um vísbendingar um að farið sé að hægja á hagkerfinu.
Andrés segir að þvert á móti hafi veltan í verslun aukist í janúar til maí miðað við sömu mánuði í fyrra.
Máli sínu til stuðnings vísar hann til samantektar Rannsóknaseturs verslunarinnar. Samkvæmt henni jókst verslun um rúma 17 milljarða á tímabilinu. Veltan jókst í flestum greinum verslunar en samdráttur varð í byggingarvöruverslunum og hjá verslunum með húsbúnað. Andrés segir að þótt kaupmáttur fari lækkandi hér á landi sjáist áhrifin ekki í veltutölum.
„Þrátt fyrir allt er kaupmáttur enn hár í sögulegu samhengi, en það er gömul saga og ný að verslunin sem atvinnugrein finnur mjög fljótt fyrir áhrifum verulegrar kaupmáttarskerðingar,“ segir Andrés. Íslensk verslun standi þó betur en verslun víða í Evrópu.
Meira má lesa um málið í Morgunblaði dagsins.