Einar Ólafur Þorleifsson, náttúrulandfræðingur á Skagaströnd, segir komur rostunga til landsins virðast tíðari og útilokar ekki að dýrin gætu sest hér að. Þetta er í 5. sinn á árinu sem rostunga verður vart á landinu.
Einar hefur fylgst grannt með dýrinu síðan það kom sér fyrir á bryggjunni á Sauðárkróki á fimmtudagskvöld, en hann segir ekki um sama rostung að ræða og þann sem sást á Álftanesi fyrr í mánuðinum.
Spurður hverjar ástæður tíðari heimsókna rostunga kunni að vera segir Einar erfitt að svara því. Hann velti þó fyrir sér hvort nálægð ísrandar Grænlands við Húnaflóa geti skýrt tíðari heimsóknir. Hann segir rostunga geta sest hér að séu þeir látnir í friði, enda nóg af æti fyrir dýrin, sem éti skeljar.
Dýrin hafi almennt forðast menn á norðurslóðum vegna veiða, en Einar segir þau almennt ekki hættuleg fólki þó þau geti verið snör í snúningum sé þeim ógnað. Fólk á Sauðárkróki hafi þó sýnt dýrinu tilitssemi, en margir gerðu sér ferð að höfninni í gær. Undir kvöld stakk gesturinn sér til sunds og sást ekki aftur áður en blaðið fór í prent.