Rúv brotlegt en sleppur við sekt

Sjónarmið Rúv að heimilt væri að auglýsa sölustaði nikótínvara
Sjónarmið Rúv að heimilt væri að auglýsa sölustaði nikótínvara Samsett mynd

Ríkisútvarpið gerðist brotlegt við fjölmiðlalög með birtingu auglýsingar frá verslunarkeðjunni Svens, sem einungis selur nikótínvörur. Fjölmiðlanefnd kemur þó ekki til með að beita stjórnvaldssektum. 

Í ábendingu sem Neytendastofa sendi til Fjölmiðlanefndar var vakin athygli á því að Rúv hefði birt auglýsingar fyrir nikótínpúða frá versluninni Svens ehf. Fjölmiðlanefnd birti álit sitt á málinu í gær þar sem fram kemur að Rúv hafi með birtingu auglýsingarinnar brotið gegn lögum um bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur. 

Töldu sig auglýsa sölustaði

Í álitinu kemur fram að sjónarmið Rúv gagnvart birtingu auglýsingarinnar hafi verið að heimilt væri að auglýsa sölustaði nikótínpúða, hvort sem um væri að ræða sérvöruverslanir sem selja eingöngu slíkar vörur eða aðra sölustaði. Byggir Rúv á því að árið 2022 tók gildi breyting á fjölmiðlalögum sem hafa verið skýrð þannig að þau banni ekki auglýsingar fyrir sölustaði nikótínvara.

Fjölmiðlanefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að auglýsingarnar sem birtust á Rúv hafi ekki verið innan marka þess sem lögin heimila. Auglýsingarnar voru vísun í gamlar auglýsingar fyrir iPod/iTunes frá Apple og hins vegar vörukynningar frá Apple. Í hinni fyrrnefndri sést skuggamynd af persónunni Sven dansa með hvítt, hringlaga form í hendi, en formið hefur að mati fjölmiðlanefndar augljósa skírskotun til nikótínpúðadósa.

Þá ná tennur persónunnar Sven einungis yfir svæði efri góms, eins og nikótínpúðar gera undir vörum neytenda, þannig er áhersla lögð á nikótínvöruna sjálfa að mati fjölmiðlanefndar. 

Í annarri auglýsingu kynnir Sven nýja verslun sína, í hlutverki Steve Jobs, þar sem hann boðar byltingu og fer í gegnum vefverslunina með áhorfendum í síma og tölvu í stuttu máli. Vefverslunin er sýnd í auglýsingunni, þar sjást þó engin vörumerki en sýndar eru hvítar nikótíndósir og heiti sumra nikótínvaranna sjást mjög greinilega. 

Stjórnvaldssektum ekki beitt 

Eitt af meginhlutverkum fjölmiðlanefndar er vernd barna og er bann við auglýsingum nikótínvara þannig mikilvægur þáttur í að sporna gegn aukinni notkun.

Þrátt fyrir niðurstöðuna um að Rúv hafi verið óheimilt að birta auglýsingarnar ákvað Fjölmiðlanefnd að beita ekki stjórnvaldssektum, þar sem Rúv hefur ekki brotið gegn lögunum áður með því að birta auglýsingar um nikótínvörur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert