Sæeyru í Auðlindagarðinn

Sæeyru eru eftirsóttur matur á sushi-veitingastöðum.
Sæeyru eru eftirsóttur matur á sushi-veitingastöðum. Ljósmynd/Sæbýli

Sæbýli, sem ræktar sæeyru á Suðurnesjum, hefur þróað framleiðsluaðferð sem er að verða að útflutningsvöru. Getur tæknin nýst við ræktun á ýmsum skeldýrum og lindýrum, eins og til dæmis ostrum, og er þess vegna hugað að útflutningi.

Framleiðsluaðferðin grundvallast á lóðréttu hillukerfi, svipuðu kerfum sem farið er að nota við ræktun grænmetis. Því fylgir hugbúnaður sem veitir yfirlit yfir ræktunarferlið og gefur tækifæri til að stýra öllum umhverfisþáttum þannig að þeir séu eins góðir og best verður á kosið. Hefur kerfið reynst vel í aðstöðu Sæbýlis í Grindavík og er verið að þróa það áfram til notkunar í nýrri aðstöðu sem fyrirtækið undirbýr í Auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun en þar mun áframeldið fara fram.

Tæknin skapar Sæbýli forskot á keppinauta. Megnið af sæeyrnaeldi í heiminum fer fram í einföldum sjókvíum, mest í Asíu, og þar eru mikil afföll vegna umhverfisaðstæðna. Þá telja forsvarmenn fyrirtækisins sig geta framleitt mun stærri sæeyru, sem eru verðmætari söluvara á markaði.

Sæbýli er að margfalda framleiðsluna og stefnir að 200 tonna framleiðslu innan fjögurra ára. Stefnan er sett á frekari aukningu, í allt að 1.000 tonn í framhaldinu. Gangi það eftir verður fyrirtækið með tæknivæddustu sæeyrnastöð í heiminum og líklega þá stærstu.

Fyrirtækið leggur áherslu á ræktun japanska afbrigðisins Ezo sem er verðmætasta tegund sæeyrna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert