Félagið Skientia ehf. var hæstbjóðandi í útboði borgarinnar á lóðinni Nauthólsvegur 79. Bauð félagið 751 milljón króna í lóðina. Næsthæsta boð kom frá ÞG Asparskógum ehf. eða 665 milljónir. REIR verk varð svo í þriðja sæti en það bauð 419 milljónir.
Skientia er í eigu Bryndísar Haraldsdóttur fjárfestis en heimilt verður að byggja allt að 65 íbúðir á lóðinni.
Það er víðar líf á lóðamarkaði. Sjávarlóðir í Grænubyggð, nýjasta hverfinu í Vogum, eru komnar í sölu. Þær kosta frá 22,5 til 30 milljónir króna og eru gatnagerðargjöld innifalin í verði lóðanna. Heimilt er að byggja 275-315 fermetra hús á lóðunum. Sverrir Pálmason, lögmaður og fasteignasali, segir lóðirnar einstakt tækifæri.