520 skjálftar mælst á rúmum sólar­hring

Skjálftarnir raðast í kringum Vífilsfell. Þessi mynd er tekin í …
Skjálftarnir raðast í kringum Vífilsfell. Þessi mynd er tekin í Jósepsdal sem er þar nærri. mbl.is/Sigurður Bogi

Meira en fimmhundruð litlir skjálftar hafa mælst suðvestur af Litlu kaffistofunni eða nánar til tekið um 520. Fyrsti skjálftinn í smáskjálftahrinunni mældist klukkan 2.37 aðfaranótt laugardags. Stærsti skjálftinn var 1,5 að stærð.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir sprungur vera á svæðinu og einhver hreyfing í þeim sé líklega að valda skjálftunum. Hún segir virknina virðast vera að dragast saman en engar tilkynningar hafi borist Veðurstofunni um það að skjálftarnir hafi fundist.

Skjálftarnir raðast í kringum Vífilsfell.

„Það var þarna hrina 2021 síðast. Þessi er aðeins öðruvísi, það eru minni skjálftar en fleiri. Hinir voru aðeins stærri og færri, en það eru sprungur á þessu svæði þannig það er örugglega bara einhver hreyfing í þeim,“ segir Lovísa.

Færri og stærri fyrri ár

Árið 2021 hafi skjálftarnir í hrinunni verið um 50 talsins og í hrinu árið 2013 á svæðinu hafi þeir verið um 120. Þá hafi skjálftarnir verið eitthvað stærri.

Spurð hvort virknin sé að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum segir Lovísa svo ekki vera.

„Við erum búin að skoða gögn GPS og alls konar svoleiðis og það er engar hreyfingar að sjá á þeim, þannig að þetta virðist vera hefðbundin skjálftavirkni á þessu svæði,“ segir Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert