Framkvæmdir hófust 2015 og engin verklok áætluð

Framkvæmdir við hof Ásatrúarfélagsins hófust fyrir um átta árum.
Framkvæmdir við hof Ásatrúarfélagsins hófust fyrir um átta árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn er nokkuð í að hof Ásatrúarfélagsins í Öskjuhlíð verði tilbúið en bygging þess hófst árið 2015. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir að engar kvaðir hafi verið um að byggingin kláraðist innan ákveðins tímaramma og að engin áætlaður verklokatími sé til staðar. 

Hann segir að hraði uppbyggingarinnar fari eftir því sem efni standa til. 

Faraldurinn í vegi hvelfingarinnar

Sem stendur hefur niðurgrafið skrifstofuhúsnæði og félagsaðstaða verið tekin í notkun en ekkert bólar á hvelfingu sem reisa á ofan á húsnæðinu ef tekið er mið af teikningum sem kynntar voru árið 2015. 

Hilmar Örn Hilmarsson er allsherjargoði Ásatrúarmanna.
Hilmar Örn Hilmarsson er allsherjargoði Ásatrúarmanna. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

„Við erum að bíða eftir því að eiga fyrir hvelfingunni,“ segir Hilmar Örn. Hann segir að upphaflega hafi verið ætlun að fá burðarvirki undir hvelfingu frá Kína en heimsfaraldurinn hafi stöðvað þau áform. Nú er hins vegar verið að kanna hvort hægt sé að fá hana frá Eystrasaltslöndum eða Póllandi. 

Taka engin lán 

„Við erum búin að eyða á þriðja hundrað milljónum í þetta. Byggjum bara þegar við höfum efni á því og tökum engin lán,“ segir Hilmar Örn. 

Vegfarendur hafa agnúast út í þann tíma sem framkvæmdir hafa …
Vegfarendur hafa agnúast út í þann tíma sem framkvæmdir hafa tekið og hafa anúast út í byggingasvæðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hofið liggur við vinsælt útivistasvæði þar sem hjólandi og gangandi eiga reglulega leið hjá. Tveir aðskildir vegfarendur sem mbl.is ræddi við agnúuðust út í það hversu lengi framkvæmdin tekur og telja byggingarsvæðið lýti í Öskjuhlíð. 

Ásatrúarfélagið hefur ekki steypt sér í skuldir vegna framkvæmdanna.
Ásatrúarfélagið hefur ekki steypt sér í skuldir vegna framkvæmdanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin kvöð um að klára 

„Það var engin kvöð á því hvenær við áttum að klára þetta,“ segir Hilmar Örn. 

Hann segir að á vonir standi til þess að hægt verði að reisa hvelfinguna á næsta ári. „Við erum núna að bíða eftir því að geta keypt stálgrind sem fer undir hvelfinguna,“ segir Hilmar. 

Segir hann þá framkvæmd fyrsta hluta lokahluta verkefnisins. „Við gerum þetta eins og skynsemin leyfir okkur,“ segir Hilmar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert