Jarðskjálfti 3,1 að stærð varð í Mýrdalsjökli rétt fyrir klukkan 23 í kvöld. Er skjálftinn með þeim stærri sem orðið hafa í jöklinum um helgina, en fyrir helgi hófst skjálftahrina á svæðinu.
Undir Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla, sem er ein stærsta og virkasta megineldstöð landsins.
Hrinan hófst aðfaranótt föstudags og var stærsti skjálftinn 4,4 að stærð. Um helgina hægðist á virkni á svæðinu.
Þegar þetta er skrifað hafa alls 25 skjálftar mælst við Mýrdalsjökul síðustu tvo sólarhringa. Þar af voru 17 undir einum að stærð.