Landris er hafið á Reykjanesskaga á ný, að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sérfræðings á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands.
Um er að ræða víðáttumikið landris sem sést um allan skagann.
„Það er óhætt að segja að það sé landris í gangi þarna. Það er mjög svipað og hefur verið síðan þetta byrjaði,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.
„Þetta er ekkert mjög hratt en víðáttumikið landris sem sést um allt Reykjanesið. Líklega þýðir þetta að það er kvika að safnast fyrir á svipuðum slóðum og var og hefur verið síðustu ár. Miðjan á þessu er undir Fagradalsfjalli, á slóðunum undir gosstöðvunum,“ segir Benedikt.
„Við getum verið að horfa á langt ferli áður en eitthvað fer að gerast aftur, en það er erfitt að segja til um það af því að tímaskalinn á þessu er mjög óljós. Það er eiginlega engu hægt að halda fram um hann.“
Hann segir viðvarandi skjálftavirkni hafa verið á Reykjanesinu. Reykjanestá, Fagradalsfjall og Krýsuvík séu virkustu svæðin.
„Það er ekkert ólíklegt að þenslan hafi áhrif á þessa virkni og auki hana, en það er ekki þar með sagt að virknin sjálf tengist beint kvikuhreyfingum, heldur er hún vegna spennubreytinga. Oft sjáum við ekki beina skjálftavirkni tengda kvikunni fyrr en hún fer af stað.“
Benedikt segir erfitt að spá fyrir um þróunina á Reykjanesskaga.
„Það þarf alla vega að gera ráð fyrir að þetta haldi áfram og endi með öðru gosi. Það er einn möguleiki sem er ekkert ólíklegur, en tímaskalinn er mjög óljós. Það geta verið mánuðir eða ár.
Við sjáum það alltaf á skjálftahrinum. Það koma mjög öflugar skjálftahrinur og við sjáum hvernig kvikan færist. Allt öðruvísi en þetta sem við erum að sjá núna, sem er víðáttumikið þenslumerki. Við getum mjög lítið sagt til um það hvenær þetta fer af stað.“