Ríkið og Vestmannaeyjabær hafa undirritað viljayfirlýsingu um að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við lagningu nýrrar vatnsleiðslu til Eyja.
Það er gert vegna þeirrar sérstöðu Vestmanneyja að vera háðar flutningi vatns frá fastalandinu og með vísan til almannavarnasjónarmiða, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir jafnframt, að viljayfirlýsingin sé gerð með fyrirvara um fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar Alþingi. Gert sé ráð fyrir að ríkissjóður greiði allt að 80% kostnaðar sem sé umfram 1.200 milljónir kr. en ekki hærri fjárhæð en 800 milljónir kr. Framlagið verði greitt til sveitarfélagsins við lok framkvæmda þegar vatnsleiðslan hefur verið tekin í notkun og endanlegur kostnaður liggur fyrir.
Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sem undirrituðu viljayfirlýsinguna í dag á Skansinum við upphaf goslokahátíðar í Eyjum.
Fram kemur, að ein vatnsleiðsla flytji nú vatn til Vestmannaeyja og komið sé að viðhaldi á henni. Eldri leiðslur séu ónýtar og nauðsynlegt er talið að leggja nýja leiðslu til að tryggja öryggi.
„Vestmannaeyjabær og almannavarnasvið ríkislögreglustjóra hafa vakið athygli á að almannavarnaástand geti skapast fljótt ef vatnsleiðsla til Eyja rofnar.
Þrátt fyrir ótvíræða skyldu sveitarfélaga, skv. lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, til að fullnægja vatnsþörf hefur ríkið ákveðið taka þátt í þessum kostnaði í ljósi sérstöðu Vestmannaeyja,“ segir í tilkynningunni.