Þorlákur Einarsson
Mikhaíl V. Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, er farinn af landi brott. Þetta staðfestir Ívan Glinkín, talsmaður sendiráðsins, í samtali við mbl.is.
Hann segir sendiherrann hafa farið föstudaginn 30. júní. Hafi hann þannig farið eftir tilmælum íslenskra yfirvalda um að snúa aftur til Rússlands fyrir 1. júlí.
Sendiherrann hafði greint frá þessum tilmælum íslenskra stjórnvalda í grein í Morgunblaðinu, sem birtist brottfarardaginn 30. júní.
Talsmaðurinn segir að sendiherrann hafi komið andmælum sínum á framfæri við utanríkisráðuneytið fyrir brottför.
Áslaug Karen Jóhannsdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, segir aðspurð að ráðuneytið gefi ekki upp upplýsingar um ferðir erlendra sendifulltrúa til og frá landinu.
Hún geti því ekki staðfest brottför sendiherrans. Eins geti ráðuneytið ekki látið fjölmiðla fá upplýsingar um þau samskipti sem farið hafi á milli ráðuneytisins og sendiráðsins.
Hún staðfestir þó að utanríkisráðuneytið hafi kallað íslenska sendiherrann heim 1. júlí „til skrafs og ráðagerða“. Utanríkisráðuneytið hafi gert ráð fyrir að rússneski sendiherrann yrði kallaður heim á sama tíma.