Stytting vinnuviku ekki hugsuð til enda

Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist fagna fyrirhuguðum breytingum í leikskólamálum í Kópavogi. Anna Hrefna segir í samtali við mbl.is:

„Við fögnum tilraunum til þess að taka á þessum vanda, sem hefur verið til staðar í leikskólakerfinu. Það er ánægjulegt að það sé gert í góðu samráði við starfsfólk og foreldra. Það sem kemur út úr því getur veitt mikilvægar upplýsingar.“

Stytting leiddi til mönnunarvanda

Hún segir að erfitt hafi verið að mæta umsaminni styttingu vinnuvikunnar í leikskólakerfinu. Það sjái flestir foreldrar, að styttingin hafi leitt til meiri mönnunarvanda en áður var. Það hafi á tíðum leitt til lokana sem hafi svo þýtt að börn hafi verið send fyrr heim.

„Þessi málaflokkur hefur verið í algerum ólestri undanfarið og stefnir í verri aðstöðu sé ekkert að gert. Það kemur illa við atvinnulífið, en ekki síst þá foreldra sem hafa ekkert bakland til að taka við þegar slíkar aðstæður skapast.“

Anna Hrefna telur það hafi verið algerlega óraunhæft að ætla að hægt væri að taka út styttingu vinnuvikunnar í leikskólakerfinu án þess að það kæmi til þjónustuskerðingar á móti.

Aðspurð segir hún að greina megi slíka þjónustuskerðingu víðar.

Kanna þurfi þjónustuhlutann

„Ég held að margir finni fyrir þjónustuskerðingu hjá hinu opinbera í kjölfarið á styttingu. Ég tel að það eigi eftir að mæla þann þátt betur. Ég tel að töluvert vanti upp á að kanna þjónustuhlutann, hver upplifun notenda þjónustunnar hefur verið, ekki bara upplifun starfsfólks og stjórnenda.“

Hún telur því það geta verið mjög fróðlegt að sjá hvernig þessu tilraunaverkefni í Kópavogi vindur fram, sjá hvað virki og hvað gangi illa. Hægt verði að læra af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka