Framtíð Grillsins á Sögu óráðin

Hótel Saga er í framkvæmdabúningi.
Hótel Saga er í framkvæmdabúningi. mbl.is/Eyþór

Framkvæmdir við breytingar og endurnýjun á húsnæði Hótels Sögu ganga vel og er húsið smám saman að taka á sig nýja mynd.

Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála hjá Háskóla Íslands, segir að áform um að menntavísindasvið skólans flytjist þangað haustið 2024 séu á áætlun. Nýverið fluttu 111 stúdentar inn í íbúðir í norðurhluta hússins.

Enn liggur ekki endanlega fyrir hvernig fornfræg veitingarými í húsinu verða nýtt. Kristinn segir að Súlnasalur verði meira og minna notaður fyrir kennslu og nemendur en muni þó flokkast sem fjölnota salur.

Veitingasala á Mímisbar

Ekki er gert ráð fyrir veitingasölu í Súlnasal þar sem dansleikir, árshátíðir og jólaböll voru haldin um áratugaskeið. Hins vegar liggur fyrir að Mímisbar á jarðhæðinni og stórt eldhús sem honum fylgir verður nýttur fyrir veitingasölu.

„Það verður væntanlega í samvinnu við Félagsstofnun stúdenta og Hámu en jafnvel verður einhver aðeins meiri fjölbreytni þar. Það er eitthvað sem skýrist í vetur,“ segir Kristinn en ráðgert er að sá rekstur muni hefjast samhliða flutningum menntavísindasviðs í húsið.

Ósvöruð spurning

Þá stendur eftir stóra spurningin um það hvað verður um Grillið þar sem einn flottasti veitingastaður landsins var rekinn.

Óhætt er að fullyrða að margir myndu gjarnan vilja sjá innréttingar Grillsins varðveittar og að staðurinn yrði nýttur til einhvers konar veitingareksturs eða fyrir samkomur. Kristinn segir að engin ákvörðun hafi enn verið tekin.

„Þetta er spurning sem á eftir að svara og það mun kannski dragast aðeins að innrétta það svæði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert