Gagnrýna framgöngu ráðherra vegna Gjástykkis

Landeigendur Gjástykkis eru gríðarlega ósáttir við vinnubrögð ráðuneytisins.
Landeigendur Gjástykkis eru gríðarlega ósáttir við vinnubrögð ráðuneytisins. mbl.is/RAX

Landeigendur háhitasvæðis Gjástykkis í Mývatnssveit gagnrýna framgöngu fyrrverandi og núverandi ráðherra vegna friðlýsingar svæðisins. Segja þau að illa hafi verið staðið að friðlýsingu svæðisins árið 2020, landeigendur hefðu ekki verið látnir vita fyrr en henni var lokið.

„Við vorum með samning við Landsvirkjun um nýtingu á Gjástykkissvæðinu og síðan kemur Guðmundur fyrrverandi ráðherra og friðlýsir með mjög lélegum vinnubrögðum. Talar hvorki við kóng né prest og friðlýsir bara úr sinni skrifstofu, talar ekki við neina, aðferðafræðin er ekki samkvæmt lögum á engan hátt. Við bara vissum ekki fyrr en auglýsing var komin til okkar og sagt að það væri búið að friðlýsa þessu, þetta er ekki ráðherranum til sóma,“ segir Ólafur H. Jónsson verkefnisstjóri í samtali við mbl.is vegna tilkynningar sem landeigendur sendu frá sér vegna málsins.

Hann segir matsnefnd eignarnámsbóta hafa úrskurðað landeigendum í vil þann 30. maí síðastliðinn og sagt ríkið skaðabótaskylt gagnvart eigendunum.  

„Síðan erum við búin að eyða ómældum tíma í að verja eignarétt okkar og hefur tekið svona nærri því tvö og hálft ár. Við óskuðum eftir að matsnefnd eignarnámsbóta kæmi og úrskurðaði um málið og við unnum þann bótarétt. Þá kemur núverandi ráðherra og segir: „Nei, nei, nei, þó þetta sé ríkisskipuð matsnefnd, við höfnum þessu, þetta gengur ekkert upp. Við reiknuðum með því að allar friðlýsingar myndu ekki vera bættar með bótum, þó það standi í lögum náttúruverndar“,“ segir Ólafur.

„Það er hraunað yfir landeigendur“

Hann nefnir að skynsamlegt væri fyrir ráðuneytið að samþykkja úrskurð nefndarinnar þar sem hún sé hlutlaust skipuð.

„Við erum ekkert ánægðir með þessar upphæðir, það er ekki það. Vinnubrögðin eru ráðuneytunum algjörlega til vansa og það hvernig þau hafa staðið að því. Núna þegar þessi úrskurður er loksins kominn sem gerðist núna fyrir mánuði síðan, sem stendur skýrum stöfum, þá segir lögmaður ríkisins „Við teljum þetta ekki vera bótahæft og þess vegna ætlum við að fara í mál og reyna að fá úrskurðinn felldan niður.“ Þetta er lögfræðimál sem er búið að kosta tugi milljóna og er að nálgast örugglega þá upphæð sem við erum að fá fyrir friðlýsinguna,“ segir Ólafur.

Þau óski þess að ríkislögmaður sjái að sér og komi ráðherra „til byggða“ til þess að ganga frá málinu.

 „Ástæðan fyrir því að okkur finnst óréttlæti beitt að við erum með samning við Landsvirkjun, skriflegan, alveg í [smáatriðum] síðan 2005, 2006 og það er eins og það sé bara ekki til neitt þarna á þessu svæði. Og við eigum ekki að fá neinar bætur fyrir það að þeir koma og friðlýsa til raforkuframleiðslu, þó það sé ný tækni og alls konar hægt að gera, það er hægt að fara langt út frá friðlýsta svæðinu og virkja þaðan en það er hraunað yfir landeigendur, það er mjög dapurlegt,“ segir Ólafur.

Hafa ekki efni á að eyða meiru í lögfræðikostnað

Þá segir hann eigendur ekki hafa efni á að eyða meiri pening í lögfræðikostnað vegna málsins.

„Við höfum ekki efni á því lögfræðilega séð, að eyða meira í kostnað því að þeir borga ekki allan lögfræðikostnað eins og við héldum nú að menn þyrftu að gera þegar þeir sækja á annarra manna eignir. Við stóðum bara í þeirri trú að það sem að matsnefndin kæmi með, að það myndi standast og ríkið myndi [samþykkja] það,“ segir Ólafur.

Hann bendir á að ríkið skipi í matsnefndina og fólkið innan hennar hafi þekkingu á sínu sviði.

„Þetta er allt fólk sem að hefur þekkingu á sínu sviði og það er helvíti langsótt ef að ríkið ætlar að fara á móti sjálfu sér gagnvart þessum úrskurði matsnefndar.“

„Þetta gengur ekki upp, það er það sem við erum að segja, hlítið útskurðinum. Eins og þeir segja, þeir ætla bara að stefna málinu inn til ógildingar, þeir ætla að láta ógilda þennan úrskurð,“ segir Ólafur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert