Maðurinn sem fannst látinn í Hafnarfirði þann 17. júní var pólskur ríkisborgari á fimmtugsaldri að nafni Jaroslaw K. Hann lætur eftir sig eiginkonu og stjúpbarn í Póllandi en einnig átti hann ættingja á Íslandi.
Pólski miðillinn Super Express greinir frá en Vísir greindi frá umfjölluninni fyrstur íslenskra miðla.
Var Jaroslaw líklega stunginn til bana með hníf og átti atvikið sér stað í svefnherbergi hans. Hann og maðurinn sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald vegna málsins þekktust og voru þeir meðleigjendur. Er sá síðarnefndi einnig pólskur ríkisborgari.
Samkvæmt óopinberum heimildum Super Exress átti maðurinn mögulega óvini í vinahópnum sínum.
Eiginkona Jaroslaw, Ewa, minntist eiginmanns síns á samfélagsmiðlum í dag þar sem hún lýsir sorg sinni og trega. Fram kemur í fyrrnefndri frétt Super Exrpess að Ewa sé búsett í borginni Przeworsk og hafi Jaroslaw nýtt hvert tækifæri til þess að heimsækja hana þar. Þau hafi átt í reglulegum samskiptum í gegnum netið á milli heimsókna.
Einnig kemur fram að Ewa hafi átt barn úr fyrra sambandi sem Jaroslaw gekk í föðurstað. Samkvæmt heimildum Super Express hefur lík mannsins ekki enn verið flutt til Póllands.