Mun gjörbylta aðstöðu heilbrigðisvísindasviðs

Skóflustunga tekin að nýju húsi heilbrigðisvísinda Háskóla Íslands.
Skóflustunga tekin að nýju húsi heilbrigðisvísinda Háskóla Íslands. mbl.is/Eyþór

Fyrsta skóflustunga nýs húss heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítalans í Vatnsmýri var tekin í dag. Húsinu er ætlað að gjörbylta aðstöðu háskólans til kennslu og rannsókna í heilbrigðisvísindum.

Húsið verður hátt í 10.000 fermetrar að flatarmáli og er áætlað að byggingu þess ljúki síðla árs 2026.  

„Mikill gleðidagur“

Þau Jón Atli Benediktsson rektor og Unnur Þorsteinsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs, munduðu skóflurnar fyrir hönd Háskóla Íslands í dag ásamt nemendunum Sigríði Helgu Kárdal Ásgeirsdóttur og Daníel Thor Myer, sem bæði eru í sviðsráði heilbrigðisvísindasviðs og í stúdentaráði HÍ. 

Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sá um skóflustunguna í fjarveru Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, beitti skóflunni fyrir hönd Landspítala háskólasjúkrahúss.

„Þetta er mikill gleðidagur,“ sagði Jón Atli, rektor HÍ, á byggingasvæðinu í dag en húsið mun rísa austan við Læknagarð sem hýsir nú hluta af starfsemi heilbrigðisvísindasviðs.

Allar deildir á einum stað

Í tilkynningu sem Háskóli Ísland sendi frá sér fyrr í dag kemur fram að allar deildir heilbrigðisvísindasviðs muni koma til með að njóta góðs af byggingunni, sem nýtt verður til bæði kennslu og rannsókna. 

Sameining eininga á sviði heilbrigðisvísinda undir einu þaki mun leiða til meiri samvinnu þvert á þær allar jafnt í kennslu sem rannsóknum. Stoðþjónusta deilda og sviðs sameinast hér í öfluga heild sem vinnur þvert á deildir,“ er haft eftir Unni Þorsteinsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs. „Þegar fjölbreytt starfsemi sviðsins er komin undir sama þak má gera ráð fyrir enn frekari grósku og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda enda mun húsnæðið halda vel utan um þann mannauð sem býr á sviðinu.“ 

Framkvæmdirnar eiga sér langan aðdraganda

Bygging húsnæðisins hefur verið lengi í bígerð, en frumathugun á nýju húsnæði fyrir heilbrigðisvísindi innan Háskóla Íslands hófst árið 2005.

Í tilkynningu háskólans segir að á þeim hartnær tuttugu árum liðin eru frá frumathuguninni hafi ýmsir vinnuhópar innan HÍ og víðar komið að hönnun kennslurýma, rannsóknarstofa og skrifstofurýma. Því sé núverandi útfærsla húsnæðisins afrakstur áralangrar þróunar og vinnu sem efla muni kennslu, rannsóknir og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda.

Þá mun nýbyggingin tengjast Læknagarði sem jafnframt verður endurgerður. Byrjað verður að reisa nýja byggingu húss heilbrigðisvísinda fljótlega og er áætlað að byggingin verði tilbúin undir lok árs 2026. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert