Rúta brann austan við Þingvallavatn

Rútan er brunnin og gjörónýt.
Rútan er brunnin og gjörónýt. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Eldur kom upp í hópferðabíl á vegum Viking Bus á Gjábakkavegi austan við Þingvallavatn í dag.

Útkall barst Brunavörnum Árnessýslu klukkan 11.07. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, segir í samtali við mbl.is að rútan hafi verið komin út á veginum og því væntanlega verið á ferð. Hann segir erfitt að segja til um eldsupptök á þessu stigi.

„Við vitum ekki til þess að það hafi orðið slys á fólki og allir komust út úr rútunni af sjálfsdáðum,“ segir Pétur í samtali við mbl.is.

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni og Selfossi fóru á vettvang …
Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni og Selfossi fóru á vettvang með tvo dælubíla og tankbíl. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Kviknaði í gróðri

Slökkvistarf stendur enn yfir en rútan er gjörónýt. 

„Það er búið að slökkva í henni en það er verið að koma í veg fyrir að eldur komi upp aftur.“

Þá segir Pétur að kviknað hafi í gróðri í kring. „Það tókst að slökkva í því og eldurinn náði ekki útbreiðslu.“

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni og Selfossi fóru á vettvang með tvo dælubíla og tankbíl að sögn Péturs. „Einnig sendum við rútu á vettvang til að flytja farþega ef á þyrfti að halda í burtu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert