Segja rangt að þau hafi neitað lögreglu um gögn

Dýraverndunarsamtökin segjast íhuga að leggja fram kvörtun.
Dýraverndunarsamtökin segjast íhuga að leggja fram kvörtun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dýraverndunarsamtökin sem birtu myndskeið af meðferð hryssna við blóðtöku hér á landi árið 2021 segjast ósátt við framgöngu íslensku lögreglunnar í málinu. Ekki sé rétt að þau hafi neitað lögreglunni um gögn. Þá íhugi þau að leggja fram kvörtun til viðeigandi aðila hjá ríkissaksóknara og lögreglu. 

Þann 28. júní síðastliðinn greindi mbl.is frá því að rannsókn á meðferð blóðmera hafi verið felld niður í janúar á þessu ári en lögreglan á Suðurlandi fór með rannsókn málsins.

Í samtali við mbl.is sagði Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi að málið hefði verið fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum erlendis frá. Ítrekað hefði verið reynt að nálgast gögnin en þau ekki fengist. Þá sagði hann samtökin hafa skýlt sér á bak við þýsk lög sem hafi ekki krafið samtökin til þess að afhenda gögnin.

„Mál­inu var vísað frá vegna skorts á gögn­um. Það var fellt í lok janú­ar á þessu ári. Við vor­um með það í ár í skoðun og það feng­ust ekki gögn þrátt fyr­ir ít­rekaðar til­raun­ir,“ sagði Sveinn á sínum tíma.

Ein beiðni og ein spurning

Í kjölfarið leitað mbl.is viðbragða hjá dýraverndunarsamtökunum. Í skriflegu svari segja þau innihald greinar mbl.is um málið að miklu leyti rangt.

„Það var ein beiðni frá íslensku lögreglunni um það að fá óklippt myndefni. AWF neitaði þeim ekki um það en vísaði þeim á það að fá réttarbeiðni vegna gagnaverndunarsjónarmiða. Hins vegar virðist íslenska lögreglan ekki lengur hafa kosið þessa leið, að minnsta kosti vitum við ekki til þess að slík beiðni hafi verið lögð fram hér,“ skrifar Tom Westermann, lögmaður samtakanna.

Þá segir hann þó eina spurningu hafa komið frá lögreglunni í lok janúar 2023 hvað málið varðar sem hafi snúið að því hvar mætti finna þýsk dýravelferðarlög. Meira hafi ekki heyrst frá íslenskum yfirvöldum og bendir hann á að þýsk dýravelferðarlög hafi engin áhrif á íslenska dýravelferð.

„Allt í allt þá grunar mig að íslensku lögreglunni hafi ekki þótt almennileg rannsóknarvinnubrögð nægilega mikilvæg og hafi viljað losa sig við málið, en það er bara mitt persónulega mat,“ skrifar Westermann.

Sögðust tilbúin til þess að leggja lögreglunni lið 

Fram kemur að samtökin íhugi nú að leggja fram kvörtun til viðeigandi aðila hjá ríkissaksóknara og lögreglu.

Í afriti af bréfi sem fylgir svari samtakanna má sjá svar þeirra til lögreglunnar á Suðurlandi vegna málsins frá 7. apríl 2022, frá Westermann. Þar kemur fram að dýraverndunarsamtökin vilji leggja áherslu á að þau séu tilbúin til þess að vera samvinnuþýð að fullu vegna málsins.

Þá er lögreglunni bent á að fara þá leið að útvega réttarbeiðni vegna þýskra gagnaverndunarlaga, hvernig megi gera slíkt og hjá hverjum. Fram kemur að gögnin hafi meiri þýðingu verði þau notuð fyrir rétti, sé þeirra aflað með þessum hætti. Í lok bréfsins er lögreglan síðan hvött til þess að hika ekki við að hafa samband.

Rannsókn hætt eftir „ítarlega yfirferð“

Þegar mbl.is leitaði til Sveins Kristjáns vegna gagnrýni samtakanna ítrekaði hann að gögn hefðu ekki borist og þess vegna hefði rannsókn verið hætt.

„[...] Og eftir ítarlega yfirferð lögreglustjóra á málinu þá var bara ákveðið að falla frá, það er svo sem ekkert annað,“ segir Sveinn.

Svörin séu enn sú að næg sönnunargögn hafi ekki borist og því hafi lögreglustjóri ákveðið að hætta rannsókn og frekari svör verði ekki gefin að svo stöddu.

 „Það er svo sem ekkert meira um það að segja,“ segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert