Skipstjórar hvalveiðibáta fá ekki miskabætur

Hvalur níu á siglingu í Hvalfirði.
Hvalur níu á siglingu í Hvalfirði. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað Matvælastofnun og Fiskistofu í máli tveggja skipstjóra hvalveiðiskipa sem kröfðust miskabóta vegna stjórnsýslueftirlits stofnananna við hvalveiðar. Um er að ræða tvo dóma í málum mannanna sem féllu 27. júní en voru birtir í dag. Dómarnir eru nánast samhljóma. 

Skipstjórarnir kröfðust hvor um sig að fá greiddar tvær milljónir kr. í bætur.

Viðvarandi myndbandsupptökur

Málið er sprottið af eftirliti með velferð dýra við veiðar á hvölum síðsumars og haustið 2022. Mennirnir voru skipstjórar á hvalveiðibátunum Hval 8 og Hval 9 á vertíðinni það ár, en bátarnir eru gerðir út af Hval hf.

Skipstjórarnir kröfðu Matvælastofnun og Fiskustofu óskipt um miskabætur vegna stjórnsýslueftirlits stefndu, einkum í formi viðvarandi myndbandsupptakna á snjallsíma þ.á m. af skipstjórunum. Þeir töldu eftirlitið án fullnægjandi lagastoðar. Jafnframt bryti það gegn persónuverndarlöggjöf.

Fól hvorki í sér rafræna vöktun né vinnslu persónuupplýsinga

Matvælastofnun og Fiskistofa taldi að sýkna bæri stofnanirnar af öllum kröfum skipstjóranna enda væri ljóst að þeirra mati að skipstjórarnir hefðu ekki orðið fyrir þeim miska sem dómkrafa þeirra byggðist á.

Að þeirra mati var það eftirlit sem lög um velferð dýra heimilar ekki talið hafa falið sér rafræna vöktun auk þess sem ekki hafi verið um að ræða vinnslu persónuupplýsinga um skipstjórana í tengslum við slíkt eftirlit. Í öllu falli var því mótmælt að skipstjórarnir hefðu sýnt fram á að skilyrði ákvæðis 26. gr. skaðabótalaga teldist uppfyllt þannig að til greiðslu miskabóta geti komið úr hendi Matvælastofnunar og Fiskistofu. Þá var því mótmælt að eftirlit með dýravelferð í tengslum við hvalveiðar á skipunum hefðu brotið í bága við meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar.

Viðvera eftirlitsmannanna ekki verið umfram tilefni eða heimildir

Að mati dómsins sýndu skipstjóranir ekki fram á að viðvera eftirlitsmannanna hefði verið umfram tilefni eða umfram heimildir. Þar með höfðu þeir ekki heldur sýnt fram á að viðveran og þar með eftirlitið hefði gengið gegn meðalhófi.

„Þvert á móti þykja stefndu hafa rennt stoðum undir að viðveran og eftirlitið hafi ekki verið umfram tilefnið og ekki hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu. Þá getur hér ekki skipt máli að í leyfi Hvals hf. og lögum og reglum um hvalveiðar komi fram að Hvalur hf. og starfsemi fyrirtækisins sæti tilteknu eftirliti, en það eftirlit lýtur að öðrum þáttum en dýravelferð. Verður þannig hvorki fallist á að það eftirlit sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 917/2022 gangi gegn meðalhófsreglu, né heldur eftirlitið sem framkvæmt var á grundvelli reglugerðarinnar,“ að því er segir í dómi héraðsdóms. 

Fyrirmælum persónuverndarlaga ekki fylgt að öllu leyti

Skipstjórarnir héldu því fram í sínum málatilbúnaði að með eftirlitinu hefði verið brotið gegn persónuvernd þeirra og þeim reglum sem þar um giltu. Þarna hefði bersýnilega verið um rafræna vöktun að ræða. 

Það er aftur á móti mat dómsins að ekki hafi verið um ræða rafræna vöktun. Þá sé það að mati dómsins jafnljóst að ekki sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga.

„Hins vegar hafa stefndu ekki sýnt fram á það að öllu leyti að fyrirmælum persónuverndarlaga hafi verið fylgt við umrætt eftirlit. Þannig hefur ekki verið sýnt fram á það formlega að tilkynningum til stefnanda hafi verið sinnt, þó svo að honum hafi verið ljóst að verið var að taka upp myndskeið og í hvaða tilgangi. Þá liggur ekki fyrir að öryggi persónuupplýsinganna hafi verið tryggt með því að taka myndskeiðin upp á farsíma og hlaða þeim svo inn í fartölvu á vegum stefnda Fiskistofu,“ segir í dómi héraðsdóms. 

„Sést þetta best á því að hluti myndskeiðanna hefur ratað í fjölmiðla, en á því eru ekki skýringar. Þá hefur ekki heldur komið fram með fullnægjandi hætti að mati dómsins hver var ábyrgðaraðili í skilningi 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2018, auk þess að ekki liggur fyrir að fræðsluskyldu hafi verið sinnt gagnvart stefnanda umfram það sem áður segir. Á hinn bóginn verður ekki falllist á að farið hafi verið gegn meðalhófi við eftirlitið og söfnun upplýsinganna eins og áður segir.

Þannig liggur fyrir að stefndu hafa sýnt fram á að þörf hafi verið á eftirlitinu og það hafi ekki verið úr hófi. Þá verður jafnframt litið til þess að á myndskeiðunum verður ekki betur séð en að stefnandi sé aukaatriði og að myndatakan hafi fyrst og fremst beinst að veiðunum sjálfum, en ekki stefnanda, þó óhjákvæmilegt sé að mynda hann í leiðinni.“

Það er því niðurstaða dómsins að hafna öllum málsástæðum skipstjóranna nema því að reglum persónuverndarlaga hefði ekki verið fylgt að öllu leyti við umrætt eftirlit.

Þótti óþægilegt að láta mynda sig

Dómstóllinn segir að í stefnu skipstjóranna hafi verið mjög rýr rökstuðningur og umfjöllun um þann miska sem þeir sögðust hafa orðið fyrir, en við aðalmeðferð kom fram að þeim hafi þótt óþægilegt að vita til þess að verið væri að mynda þá við vinnu sína.

„Eins og áður segir felast ekki viðkvæmar persónuupplýsingar í hinum umdeildu myndatökum. Við myndatökurnar var stefnandi við vinnu sína en ekki að sinna persónulegum erindum eða raunverulegu einkalífi sínu og sjaldnast þekkjanlegur. Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að þau frávik sem urðu við umrætt eftirlit gagnvart ákvæðum persónuverndarlaga séu ekki svo veigamikil eða íþyngjandi gagnvart stefnanda að þau geti talist vera ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Af þessu leiðir að sýkna ber stefndu af öllum kröfum stefnanda,“ segir í niðurstöðukafla dómanna tveggja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert