Tekjur einstaklinga á síðasta ári voru hæstar í Garðabæ en lægstar í Skagabyggð á Skaga á Norðvesturlandi.
Hagstofan hefur uppfært ítarlegt talnaefni um tekjur einstaklinga fyrir tímabilið 1990 til 2022 sundurliðað eftir sveitarfélögum.
Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir króna. Á Seltjarnarnesi var miðgildi heildartekna rúmar 7,8 milljónir og tæpar 7,4 milljónir króna í Fjarðabyggð. Í Kópavogi var miðgildi heildartekna um 7,3 milljónir og í Reykjavík rúmlega 6,9 milljónir króna.
Fjórtán sveitarfélög höfðu miðgildi heildartekna undir 6 milljónum króna og eitt var undir 5 milljónum króna en í Skagabyggð var miðgildi heildartekna tæpar 4,8 milljónir króna á síðasta ári.
Meðaltal heildartekna var hærra en miðgildi eða tæpar 10,6 milljónir í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Í Hafnarfirði og Mosfellsbæ um 8,5 milljónir króna og í Reykjavík var meðaltal heildartekna tæpar 8,3 milljónir króna.
Landsmeðaltal heildartekna var 8,4 milljónir króna á síðasta ári.