Rúmlega 1.300 eintök af Tesla Model Y höfðu verið skráð á Íslandi í ár síðastliðinn miðvikudag. Það er mesti fjöldi af einni bílategund á einu ári frá upphafi.
Nánar tiltekið höfðu þá verið skráðar 1.316 Model Y-rafbifreiðar á árinu en fyrra metið var sett 1988 þegar rúmlega 1.200 Toyota Corolla bifreiðar voru skráðar. Toyota Yaris er skammt undan í þriðja sætinu en um 1.200 eintök voru skráð af þeirri tegund árið 2006.
Fulltrúi Samgöngustofu sagði í svari við fyrirspurn blaðsins að Samgöngustofa hefði í raun ekki neitt sem héti „sölutölur“ í sínum gagnagrunnum.
Um væri að ræða tölur yfir nýskráningar bifreiða á hverju ári eftir tegund og undirtegund en ætla mætti að flestar þessara bifreiða séu svo seldar af innflytjanda.
Einnig var bent á að dæmi séu um að einstaklingar flytji inn bifreiðar til eigin nota.
Meira má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.