11 skjálftar stærri en 3 og almannavarnir funda

Vel fannst fyrir skjálftum á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.
Vel fannst fyrir skjálftum á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir 1200 jarðskjálftar hafa mælst í jarðskjálftahrinunni sem hófst í gær. Alls hafa 11 skjálftar mælst yfir þremur að stærð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands.

Þar segir að vel hafi fundist fyrir skjálftunum á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.

Almannavarnir funda

Búist er við áframhaldandi jarðskjálftavirkni næstu daga og er fólki ráðlagt frá því að ferðast um á svæðinu þar sem auknar líkur eru á grjóthruni.

Landris við Fagradalsfjall hófst í byrjun apríl og er talið að virknin nú stafi af völdum kvikuinnskots á um 5 kílómetra dýpi.

Vísindamenn Veðurstofunnar og Háskóla Íslands munu funda með Almannavörnum kl. 9 og fara yfir frekari gögn, að því er segir í tilkynningu.

Uppfært klukkan 6.49:

Alls hafa 11 skjálftar stærri en 3 nú mælst á Reykjanesinu frá miðnætti. Fimm þeirra urðu eftir klukkan 6 í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert