Almannavarnir í biðstöðu

Almannavarnir munu ekki boða til nýs fundar nema dragi til …
Almannavarnir munu ekki boða til nýs fundar nema dragi til frekari tíðinda á svæðinu. Photo/Skúli Halldórsson

Ekki verður boðað til nýs fundar með viðbragðsaðilum vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga nema draga fari til frekari tíðinda á svæðinu.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is. 

Á fundi almannavarna í dag var farið yfir stöðu mála og skerpt á samhæfingaraðgerðum viðbragðsaðila. Var fundurinn vel sóttur að sögn Hjördísar.

Almannavarnir fylgjast nú náið með gangi mála og grípa til frekari aðgerða ef ástandið breytist. „Nú erum við bara að bíða og sjá, enda er það eitt af okkar hlutverkum í svona aðstæðum.“

Vara við grjóthruni

Þá var SMS-kerfi almannavarna virkjað í dag og verða varúðarskilaboð send á alla þá sem koma inn á tiltekið svæði í kringum Fagradalsfjall. Sérstaklega er varað við grjóthruni og er fólk beðið um að vera ekki á ferð á svæðinu að óþörfu.

„Það er að koma grjót niður úr hlíðunum sem getur verið stórhættulegt. Svo bendum við fólki líka á að svona jarðskjálftahrina eins og við erum að sjá núna getur verið undanfari eldgoss,“ segir Hjördís og ítrekar að mikilvægt sé að hafa varann á. 

Nokkuð er um mannaferðir á svæðinu í kringum Fagradalsfjall. Ekki stendur til að loka svæðinu eins og staðan er nú. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert