„Ekki langt eftir“

Horft í átt að Keili á Reykjanesskaga.
Horft í átt að Keili á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við skjálftavirkni er kvikan á Reykjanesskaga á um tveggja kílómetra dýpi. Ef miðað er við atburðarásina frá fyrri tveimur eldgosum á Reykjanesinu gæti farið svo að það gjósi innan fimm daga.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftahrinu og mögulegt eldgos á Reykjanesskaganum.

„Ég myndi halda að kvikan væri á tveggja til þriggja kílómetra dýpi. Það er frekar grunnt og það er ekki langt eftir. Tíminn er alltaf að styttast. Í fyrsta gosinu voru þetta tvær vikur að gosi. Í síðasta gosi voru þetta ekki nema fimm dagar þar til það fór að gjósa,“ segir Benedikt.

„Við verðum að gera ráð fyrir því að það sé styttra í gos núna, við getum ekkert verið viss um það, en við verðum að vera tilbúin fyrir það,“ bætir hann við, spurður um mögulega tímasetningu á gosi miðað við aðdraganda síðustu eldgosa.

Margt um líkt síðustu eldgosum

Spurður hvort þetta sé eins atburðarás og á síðasta ári þegar gaus í Meradölum segir Benedikt hana vera mjög svipaða. Hann segir einnig að ef eldgos verði bendi allt til þess að það verði svipað eldgosum síðustu ár.

„Virknin er aðeins norðar en hún var þá. Kvikan leitar alltaf í sprungur þar sem er auðveldast fyrir hana að fara.

Það er ekki hægt að segja til um hversu langt það verður. Tíminn verður að leiða það í ljós. Við eigum ekki von á miklu flæði þarna. Þetta er alla vega ekki að ógna neinum innviðum eða byggð, nema að þetta verði verulega langt gos,“ segir hann og bætir við að líklegast komi kvika upp á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Reiknar með stórum skjálftum

Benedikt segir að það megi reikna með skjálftum af stærð 6,0-6,3 við Brennisteinsfjöll, nær höfuðborgarsvæðinu.

„Hjá Brennisteinsfjöllunum er há spenna. Þá erum við komnir nær höfuðborgarsvæðinu og það gæti verið mesta hættan. Það er tvenns konar hætta. Það getur orðið grjóthrun svo það er ekki sniðugt núna að vera undir bröttum hlíðum.

Síðan þarf fólk að huga að hefðbundnum undirbúning fyrir jarðskjálfta. Passa að hillur séu vel festar og huga að lausum hlutum,“ segir hann og biðlar til fólks að hafa varann á.

Kvikan kemur sér í átt að yfirborði

Spurður hvað komi svona jarðskjálftahrinu af stað bendir Benedikt á að landris sé búið að vera viðvarandi á Reykjanesinu síðan í apríl.

Hann segir að landrisið sé búið að koma af stað jarðskjálftavirkni annars staðar á landinu og ítrekar að jarðskjálftavirkni við Bárðarbungu og við Vífilsfell síðustu daga hafi ekki sett jarðskjálftahrinu af stað á Reykjanesskaga.

„Það sem gerist núna er að væntanlega hefur kvikuþrýstingurinn orðið það mikill að jarðskorpan hefur ekki haldið því. Þannig að núna er kvika að fara úr kvikuhólfinu og inn í jarðskorpuna í áttina að Keili. Hún er að koma sér í áttina að yfirborði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert