Gæti endað með eldgosi

Mynd frá gosinu í Meradölum síðasta sumar.
Mynd frá gosinu í Meradölum síðasta sumar. mbl.is/Hákon

Ef jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga heldur áfram eins og hún hefur verið að gera gæti hún endað með eldgosi. Ef til goss kemur gæti atburðarásin orðið hraðari en í eldgosinu í Fagradalsfjalli í fyrra.

Þetta seg­ir Bjarki Kaldalóns Fri­is, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is.

Fjór­ir jarðskjálft­ar stærri en fjór­ir hafa mælst við Fagradalsfjall frá því klukk­an 7.31 í morg­un. Sá stærsti var klukk­an 8.22 og var 4,8 að stærð.

Fjöldi skjálftanna skiptir máli

Eru líkur á að þetta sé upphafið af eldgosi?

„Það getur auðvitað endað með því ef þetta heldur áfram. Mestu máli skiptir fjöldi skjálftanna og hvernig þeir eru að þróast. Hvort þeir eru að koma nær yfirborðinu eða ekki,“ segir Bjarki.

Ef skjálftarnir eru að mælast á minna dýpi getur það verið merki um að kvika sé að koma nær yfirborðinu, að sögn Bjarka. Einnig skiptir máli hvernig skjálftarnir raðast.

Atburðarásin hraðari

„Eins og er er þetta að þróast meira og minna eins og gerðist fyrir síðasta gos,“ segir Bjarki.

Hann segir að ef til goss komi gæti atburðarásin orðið mun hraðari en síðast af því að jarðskorpan er veikburða eftir eldgosið í Meradölum síðasta sumar.

„Það getur líka endað með því að virknin deyr út og svo gerist ekki neitt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert