Athugull vegfarandi veitti því athygli um liðna helgi að hiti og gufa voru farin að stíga upp á nýjum stöðum á Hellisheiði. Vakið hefur furðu margra hversu mikill jarðhiti hefur verið að leita upp á yfirborðið, ekki síst undir þjóðvegi eitt í Hveradalabrekku við Skíðaskálann.
Vart varð við aukna jarðhitavirkni á svæðinu í maí.
Gufubólstrar stigu upp um helgina á að minnsta kosti tveimur nýjum stöðum við Hveradalabrekku.
„Orka náttúrunnar sem rekur Hellisheiðarvirkjun og er að nýta jarðvarma á svæðinu fylgist afar náið með stöðu mála á þessu svæði í góðu samstarfi við Vegagerðina. Ekkert óvenjulegt hefur sést eða mælst á svæðinu undanfarna daga,“ segir Breki Logason, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið í dag.